spot_img
HomeFréttir76 stiga sigur Þórs á þjálfaralausum Reynismönnum

76 stiga sigur Þórs á þjálfaralausum Reynismönnum

Það var snemma ljóst í hvað stefndi í Íþróttahöllinni á Akureyri í dag þar sem heimamenn í Þór fengu Reyni Sandgerði í heimsókn. Reynismenn sem verma botnsæti deildarinnar mættu þjálfaralausir og með aðeins sex leikmenn til leiks á móti fullmönnuðu Þórsliði.

 

Benedikt Guðmundsson gerði eina breytingu á byrjunarliði sínu frá leiknum á föstudag sem vannst í framlengingu á móti Hamar. Hinn 17 ára gamli Svavar Sigurður Sigurðarson kom inn í byrjunarliðið á kostnað Þrastar Leós Jóhannssonar. Erlendu leikmennirnir í liði Þórs, þeir Danero Thomas og Drew Lehman opnuðu leikinn með sitthvorum þristnum og gáfu tóninn. Yfirburðir heimamanna voru algjörir og staðan eftir fyrsta leikhluta 34-6 fyrir Þór. Lehman og Thomas skiluðu samtals 20 stigum í fyrsta leikhlutanum en hvíldu svo það sem eftir lifði leiks.

 

Þrátt fyrir það héldu Þórsarar áfram að auka forskotið og réðu leikmenn Reynis ekkert við tröllið úr Bárðardal, Tryggva Snæ Hlinason sem sýndi mögnuð tilþrif. Hálfleikstölur 59-19, heimamönnum í vil.

 

Lemstraðir Sandgerðingarnir bitu aðeins frá sér í upphafi síðari hálfleiks og settu niður þrjár þriggja stiga körfur á fyrstu mínútunum í þriðja leikhluta og minnkuðu muninn í 65-31. Þá gáfu Þórsarar aftur í en Benedikt leyfði yngri mönnum að spreyta sig á löngum stundum í leiknum. Þórsarar höfðu 49 stiga forskot eftir þriðja leikhluta, 83-34.

 

Eins og áður segir voru gestirnir aðeins með sex leikmenn til taks og því fór þreytan að segja til sín þegar leið á leikinn en Reynismenn, líkt og Þór, léku erfiðan leik síðastliðið föstudagskvöld. Þórsarar héldu áfram að auka forystuna í síðasta leikhlutanum þar sem Sindri Davíðsson og áðurnefndur Tryggvi fóru mikinn auk þess sem hinn 17 ára gamli Sturla Elvarson sýndi skemmtileg tilþrif.

 

Lokatölur urðu 116-40 heimamönnum í vil og eins og tölurnar gefa til kynna var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. Þórsarar eru því komnir upp að hlið Vals og Fjölnis í efsta sætinu en Reykjavíkurliðin eiga einn leik til góða á meðan Þórsarar eru komnir í jólafrí.

 

Reynismenn sitja hinsvegar sem fastast á botni deildarinnar og hafa tapað öllum átta leikjum sínum til þessa.

 

Stigaskor Þórs: Tryggvi Snær Hlinason 37, Sindri Davíðsson 19, Sturla Elvarsson 13, Drew Lehman 13, Svavar Sigurður Sigurðarson 8, Einar Ómar Eyjólfsson 8, Danero Thomas 7, Ragnar Helgi Friðriksson 4/14 stoðsendingar, Elías Kristjánsson 4, Þröstur Leó Jóhannsson 3, Jón Ágúst Eyjólfsson 0.

 

Stigaskor Reynis: Róbert Ingi Arnarsson 12, Brynjar Þór Guðnason 9, Garðar Gíslason 8/10 fráköst, Birkir Örn Skúlason 8, Ágúst Einar Ágústsson 3, Hinrik Albertsson.

 

Umfjöllun:  Arnar Geir Halldórsson

 

Tölfræði leiks.

 

Mynd úr safni: Tryggvi Snær Hlinason fór hamförum í leiknum í kvöld með 37 stig og 5 varin skot. (Hörður Tul.)

Fréttir
- Auglýsing -