Í 1. deild karla var leikið á Flúðum. Heimamenn í liði Hrunamanna tóku á móti Sindra frá Hornafirði. Liðin mættu aðeins með 10 menn til leiks þar sem meiðsli og veikindi hafa herjað á bæði lið, meðal þeirra sem vantaði í leikinn voru Bandaríkjamennirnir í liðunum, Kent Hanson hjá Hrunamönnum og Detrek Browning hjá Sindra. Allir leikmenn á skýrslu komu við sögu og fengu alvöru hlutverk með liðum sínum.
Fyrsti leikhluti einkenndist í byrjun af mörgum töpuðum boltum heimamanna. Sóknarleikur þeirra var mistækur. Undir lok leikhlutans hresstust þeir þó nokkuð og eftir flautuþrist Óðins Freys Árnasonar stóðu leikar 22-25.
Ekki var langt liðið á 2 fjórðung þegar Yngvi Freyr Óskarsson, miðherji Hrunamanna, gerði árás á vörn Sindra með þeim afleiðingum að fá dæmdan á sig ruðning og þar með 4. villuna. Það var mikið áfall fyrir Hrunamenn því bæði hafði Yngvi Freyr leikið vel fyrir liðið fram að þessu og eins var fáum hávöxnum leikmönnum til að dreifa til þess að leysa hann af. Yngvi fór af velli og við það opnaðist vörn Hrunamanna talsvert en þeir léku svæðisvörn eins og þeir hafa yfirleitt gert í vetur, þó ekki eitt og sama afbrigði hennar allan leikinn.
Í 3. fjórðungi var Yngvi aftur kominn á völlinn en varnarleikurinn lagaðist þó ekki hætishót. Sindramenn skoruðu af vild og komust 18 stigum yfir um tíma. Það var ekki djarft upplitið á strákunum á bekk heimamanna og félagar þeirra á vellinum hengdu hausinn. Ekkert benti til annars en stórsigurs Hornfirðinganna. En þá, eins og hendi væri veifað, hrundi leikur Sindra. Leikmenn liðsins og þjálfari þess tóku upp á því að tuða í dómurunum, mótmæla flestum dómum og brjóta hvað eftir annað af sér, oft án þess að þurfa þess. Hrunamenn gengu á lagið og allt í einu var munurinn ekki nema 5 stig og var minnstur 2 stig. Síðustu mínútur leiksins voru æsispennandi.
Leikurinn var frekar prúðmannlega leikinn en dómurum leiksins fannst samt ástæða til þess að blása oft í flauturnar. Þeir dæmdu 60 villur í leiknum! Það gat því varla farið öðruvísi en þannig að einhverjir leikmenn fengju útilokun fyrir að brjóta 5 sinnum af sér. Þrír Hornfirðingar voru sendir af velli áður en leiknum lauk og báðir erlendu leikmenn Hrunamanna sömuleiðis. Það hafði áhrif á lokasóknir liðanna að sterkir póstir máttu ekki taka þátt. Forystan sem Sindramenn höfðu náð um miðjan leikinn hélt liðinu inni í leiknum. Hrunamenn söxuðu vel á forskotið en vantaði herslumuninn til að komast yfir og Sindri hafði sigur, 90-93.
Bestu leikmenn vallarins voru Clayton leikstjórnandi Hrunamanna og Jordon Connors hjá Sindra. Fyrir Sindra léku þeir líka vel Tómas Orri Hjálmarsson og Gabriel Adersteg. Eins verður að minnast á Gísla fyrirliða Hallsson því þótt framlag hans á þeim þáttum sem tölfræðin mælir hafi ekki verið sérstaklega hátt hafði nærvera hans bersýnilega góð áhrif á leikmenn liðsins og liðið lék best þegar hann var á vellinum. Hjá Hrunamönnum er vert að minnast á framlag Yngva Freys sem skoraði 17 stig og tók 8 fráköst og Óðins Freys sem skoraði 11 stig á 11 mínútum. 8 stoðsendingar Eyþórs Orra og 16 fráköst Karlos eru líka færð til bókar sem gott og mikilvægt framlag og ekki má gleyma þætti Dags Úlfarssonar, en hann fór fyrir liði Hrunamanna í áhlaupinu í 4. leikhluta með skynsömum ákvörðunum, hæfilegri baráttu og áræði sem flestir hinna ungu leikmanna liðsins mættu taka sér til fyrirmyndar.
Umfjöllun, viðtöl / Karl Hallgrímsson