Stjarnan hóf leik í úrslitakeppni Bónus-deildarinnar í kvöld sem hlýtur að vera fagnaðarefni í Garðabænum enda komst liðið ekki í úrslitakeppnina á síðasta tímabili.
Stjörnumenn koma meira að segja inn í úrslitakeppnina úr öðru sætinu í deildarkeppninni en samt sem áður greinir undirritaður umtalsvert stress og efasemdir í andrúmsloftinu í Garðabænum. Stjarnan hefur tapað fullt af leikjum eftir áramótin og liðið rétt hékk á öðru sætinu með nægilega smávöxnu tapi gegn Njarðvík í lokaumferðinni! Þar að auki eru það sjálfir stjörnubanarnir úr Breiðholtinu og Gettóarnir góðu sem eru andstæðingarnir í 8-liða úrslitunum.
Það hefur gengið alveg ljómandi vel hjá ÍR-ingum í vetur eftir að maður fólksins, Borche Ilievski, sneri aftur í Breiðholtið. Nýtt ÍR-ævintýri er mögulega í uppsiglingu! Hefst ævintýrið fyrir alvöru í kvöld með sigri í Garðabænum, Kúla góð?
Kúlan: ,,Nei, það væri þjófstart. Þessi fyrsti leikur verður tiltölulega jafn, Stjarnan mun leiða að mestu með nokkrum stigum og ná að landa 10 stiga sigri að lokum, 96-86“.
Byrjunarlið
Stjarnan: Ægir, Hilmar, Febres, Orri, Rombley
ÍR: Falko, Hákon, Pryor, Kavas, Koljanin
Gangur leiksins
Það var úrslitakeppnisskjálfti í gestunum í byrjun leiks. Eftir þriggja mínútna leik leiddu Stjörnumenn 11-0 og Borche greip til leikhlés. Falko mölbraut ísinn má segja fyrir ÍR-inga og setti fyrstu 8 stig liðsins! Heimamenn leiddu þó áfram, sóknarleikur gestanna var eiginlega bara Falko og að sama skapi gerði Stjarnan vel varnarlega. Að loknum fyrsta leikhluta höfðu heimamenn fleygt niður 30 stigum gegn 22 gestanna. Munurinn lá t.a.m. í þriggja stiga nýtingunni, Stjarnan 4/7 en ÍR 0/3.
Jörgensen kom inn af bekknum fyrir gestina í öðrum leikhluta og smellti tveimur smekklegum þristum í röð, staðan 32-28 og draumur um auðveldan sigur horfinn í bili fyrir Garðbæinga. ÍR-ingar minnkuðu muninn skömmu síðar í 1 stig, 34-33, en Orri og Rombley svöruðu áhlaupinu og næstu 6 stig voru heimamanna. Gestirnir létu það ekkert á sig fá og Falko kom sér í 27 stig eftir stolinn bolta og aftur varð munurinn aðeins 1 stig, 48-47. Stjarnan átti hins vegar síðustu þrjár mínúturnar í fyrri hálfleik, settu 7 stig í röð og gátu farið sæmilega rólegir inn í hléið í stöðunni 55-47.
ÍR-ingar mættu tilbúnir í seinni hálfleikinn og enn og aftur náðu þeir nánast að brúa bilið, staðan 56-55 og allt í járnum. Um miðjan leikhlutann syrti hins vegar í álinn fyrir gestina, Zarko Jukic fékk sína fimmtu villu og skömmu síðar var múrinn frægi risinn, staðan 69-58. Öll von var þó ekki úti fyrir Breiðhyltinga, aðeins 8 stig skildu liðin að, 74-66, fyrir lokafjórðunginn.
Tilfinningin var sú að það hlyti að koma að því að Stjörnumenn myndu ná að slíta sig frá gestunum. Tölfræðilega var erfitt að skilja af hverju það hafði ekki gerst þá þegar þar sem Stjarnan hirti endalaust af sóknarfráköstum og skutu sömuleiðis mun betur. En það kom að því og það fór vel á því að Rombley gekk frá leiknum með sínu níunda sóknarfrákasti og 2 auðveldum stigum í kjölfarið og kom stöðunni í 87-73 um miðjan lokaleikhlutann. Skömmu síðar setti hann lokið á kistuna með þristi. Lokatölur urðu 101-83, öruggur sigur Stjörnunnar að lokum.
Menn leiksins
Shaq Rombley var rosalegur í kvöld, lauk leik með 27 stig, tók 19 fráköst og 9 þeirra á sóknarvelli! Ægir var allnokkuð sæmilegur líka, setti 24 stig, skaut vel, tók 8 fráköst og gaf einnig 8 stoðsendingar! Júlíus Orri skellti niður 16 dýrmætum stigum af bekknum.
Falko var algerlega stórkostlegur í kvöld, setti 41 stig! Hann mun hins vegar aldrei vinna Stjörnuliðið einn, svo mikið er víst.
Kjarninn
Stjörnumenn hafa nú mögulega klifið upp úr dalnum sem þeir hafa setið í að undanförnu. Baldur viðurkenndi í viðtali eftir leik að honum væri létt eftir þennan sigur. Hann talaði um að vörnin hafi verið stærsta ástæðan fyrir sigrinum í kvöld. Staðan er hins vegar bara 1-0 og serían (vonandi) bara rétt að byrja!
ÍR-ingar tóku 27 fráköst en Stjarnan 50 – 19-5 í sóknarfráköstum! Þriggja stiga nýtingin var í 20% á móti 34% heimamanna. Jukic fékk fimm villur eftir 25 mínútna leik og Kavas skoraði 2 stig yfir allan leikinn! Við Borche gátum ekki annað en verið sammála um það að þetta þarf að breytast mikið ætli ÍR-liðið sér að skapa nýtt ævintýri í Breiðholtinu.
Myndasafn (væntanlegt)