13:49
{mosimage}
Páll Axel Vilbergsson er í fantaformi þessa stundina og verður hann í broddi fylkinar hjá Grindavíkurliðinu í vetur. Páll gerði 20,7 stig að meðaltali í leik með Grindavík á síðustu leiktíð en greinarhöfundi segir svo hugur að meðaltalið verði hærra í ár. Páll bryddaði upp á skemmtilegri nýbreytni í leik gegn Njarðvík um meistari meistaranna þegar hann tróð í körfu andstæðinganna. Páll er í fantaformi og á eftir að gera harða atlögu að titlinum besti leikmaður deildarinnar þessa leiktíðina.
Njarðvíkingurinn Friðrik Ragnarsson hefur tekið við þjálfun Grindavíkurliðsins en hann er margfaldur Íslands- og bikarmeistari, sem leikmaður og þjálfari. Þetta er ekki fyrsti Friðrikinn úr Njarðvík sem þjálfar í Grindavík en nafni hans Rúnarsson, framkvæmdastjóri KKÍ, var þjálfari Grindvíkinga þegar liðið landaði sínum fyrsta og eina Íslandsmeistaratitli. Ekki er búist við því að Ragnarsson nái þeim stóra í fyrstu atrennu og Grindvíkingar höfnuðu í 5. sæti deildarinnar samkvæmt spá Karfan.is
Þrír þungavigtarmenn hafa sagt skilið við Grindvíkinga sem leikmenn en það eru Helgi Jónas Guðfinnsson, Guðlaugur Eyjólfsson og Pétur Guðmundsson. Skörð þessara leikmanna eru vandfyllt en danski bakvörðurinn Adam Darboe hjálpar þar mikið til. Þá er Bandaríkjamaðurinn Steven Thomas nokkuð sterkur og gæddur þeim hæfileikum að geta hangið í loftinu, ja….. eins lengi og hann vill.
Pallaparið Kristinsson og Vilbergsson verða að skila sínu hlutverki og vel það ef Grindavík á t.d. að verja bikarmeistaratitil sinn eða gera atlögu að Íslandsmeistaratitlinum. Gaman verður að sjá hvort hinn ungi og hrausti Davíð Páll Hermannsson fái þá sénsa hjá þjálfaranum sem hann hefur verið að bíða eftir. Þar er efnilegur leikmaður á ferð.
{mosimage}
Breidd Grindvíkinga er þolanleg en efast má um það hvort hún dugi til þess að fleyta þeim t.d. í úrslit deildarinnar. Ekki má mikið út af bregða svo illa fari hjá liðinu. Mikið mun einnig mæða á Þorleifi Ólafssyni en hann steig vel upp á síðustu leiktíð.
Leikmenn Grindavíkur:
Adam Darboe
Aleksandar Ivanovic
Ármann Örn Vilbergsson
Bergvin Freygarðsson
Björn Steinar Brynjólfsson
Eggert Daði Pálsson
Davíð Páll Hermannsson
Haraldur Jón Jóhannesson
Helgi Björn Einarsson
Ólafur Ólafsson
Páll Axel Vilbergsson
Páll Kristinsson
Sigurður Friðrik Gunnarsson
Sigurður Sigurbjörnsson
Steven Thomas
Þorleifur Ólafsson
Grindvíkingar hafa löngum verið mikið skotlið og sá þáttur spilaði sterkt inn er þeir lögðu Keflavík í bikarúrslitunum í Laugardalshöll í fyrra. Þó er ekki alltaf hægt að treysta á langskotin og þegar þau bregðast gæti orðið annasamt hjá Páli Kristinssyni og Steven Thomas við körfuna. Eins og fram hefur komið spáir Karfan.is því að Grindavík hafni í 5. sæti deildarkeppninnar. Ef allt gengur upp gætu þeir þess vegna orðið Íslands- eða bikarmeistarar, ef allt gengur upp.
Myndir: [email protected]