Haukar eru komnir í úrslit og Tindastóll er úr leik í úrslitakeppni Dominos deildar karla í körfubolta eftir tap í undanúrslitum í Síkinu í kvöld. 23 ára bið Hauka eftir þátttöku í úrslitum úrvalsdeildar er því lokið og það sem afmælisgjöf er vel viðeigandi á 85 ára afmæli félagsins.
Það var hörkukörfuboltaleikur sem Tindastóll og Haukar buðu upp á í Síkinu í kvöld og ótrúleg stemning hjá stuðnungsmönnum beggja liða. Haukarnir gátu tryggt sig í úrslit með sigri en heimamenn stefndu að því að verja heimavöll sinn sem hefur reynst þeim vel seinni hluta vetrar.
Leikurinn fór af stað af krafti og það voru heimamenn í Tindastól sem höfðu frumkvæðið framanaf og leiddu 21-13 þegar ein og hálf mínúta var eftir af fyrsta fjórðung. Þeir fóru þó illa að ráði sínu í lokin og Haukarnir skoruðu 6 síðustu stig fjórðungsins og komu leiknum í 21-19, Mobley með risaþrist á síðustu sekúndunni.
Annar leikhluti þróaðist á svipaðan hátt, liðin skiptust á að hafa forystu en Kári Jóns kom Haukum 2 stigum yfir í lok hálfleiksins, ískaldur á vítalínunni.
Áhorfendur bjuggust við sama barningnum áfram í seinni hálfleik en það fór aðeins öðruvísi. Heimamenn komu steinsofandi til leiks og Haukarnir gengu á lagið og skoruðu fyrstu 12 stig seinni hálfleiks á fyrstu 3 mínútunum! Ótrúlegur kafli þar sem hreinlega ekkert gekk hjá heimamönnum og þeir virkuðu alveg týndir, köstuðu boltanum frá sér hvað eftir annað. Heimamenn á pöllunum misstu þó ekki móðinn og hvöttu liðið áfram. Það virkaði og Pétur Rúnar og Dempsey átu muninn niður í sameiningu og þakið ætlaði af húsinu þegar Dempsey tróð yfir Haukavörnina og Ingvi jafnaði metin í 62-62 í næstu sókn. Þessi endurkoma Stólanna hélt áfram og þeir komust 4 stigum yfir þegar 4 og hálf mínúta voru eftir, 66-62. Þá höfðu liðin ekki skorað stig í rúmar 3 mínútur og taugarnar þandar til hins ítrasta. Léleg hittni hélt áfram og liðin misnotuðu hvert skotið á fætur öðru. Haukarnir héldu þó betur haus og jöfnuðu 66-66 þegar tæpar 4 mínútur voru eftir. Lewis kom Tindastól yfir í næstu sókn og það reyndist lokakarfa heimamanna í leiknum, ótrúlegt en satt, þegar næstum 3 og hálf mínúta var eftir! Finnur jafnaði fyrir Hauka þegar ein og hálf mínúta var eftir og Kári Jóns kom þeim 2 stigum yfir 23 sekúndum fyrir leikslok og það reyndust sigurstigin því heimamenn klúðruðu lokasókninni og ævintýralegur þristur Helga Margeirs kom því miður hálfri sekúndu of seint.
Haukar voru mjög jafnir í sínum leik í kvöld og allt byrjunarliðið skilaði yfir 10 stigum hver og Mobley var stigahæstur með 16 stig og reif þar að auki niður 16 fráköst, sannkölluð tröllatvenna hjá kappanum. Hjá Tindastól var Dempsey atkvæðamikill með 24 stig og 8 fráköst þrátt fyrir að hafa lítið spilað í öðrum fjórðung. Lewis bætti við 18 stigum og Pétur Rúnar var gríðarlega öflugur með 16 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar. Það dugði þó ekki til því framlagið frá öðrum leikmönnum var af skornum skammti, að minnsta kosti sóknarlega.
Mynd: Lokaskot Helga Margeirs kom of seint.