U18 ára kvennalandslið Íslands mátti í dag þola annað stórt tap og að þessu sinni gegn Svíum. Íslensku stelpurnar hafa nú tapað tveimur fyrstu leikjunum sínum á Norðurlandamótinu með miklum mun en lokatölur gegn Svíum í dag voru 41-114 þeim sænsku í vil. Margrét Rósa Hálfdánardóttir var stigahæst í íslenska liðinu með 11 stig og 6 fráköst.
Svíar komust í 0-6 áður en Hildur Björg Kjartansdóttir braut sér leið upp að körfunni og kom Íslandi á blað. Heimakonur í Svíþjóð voru þó mun grimmari þessar fyrstu tíu mínútur leiksins og í stöðunni 4-16 tók Jón Halldór leikhlé fyrir íslenska hópinn.
Ekki hafði leikhléið tilætluð áhrif því munurinn jókst og að loknum fyrsta leikhluta var staðan 7-32 Svíum í vil og þær íslensku rétt eins og í fyrsta leiknum í gær fóru óvarlega með boltann og töpuðu honum 8 sinnum í fyrsta leikhluta.
Vörn Íslands batnaði nokkuð í öðrum leikhluta en sóknarleikur liðsins var enn tilviljanakenndur og Svíar gáfu fáar glufur í varnarleik sínum. Eftir fimm mínútna leik var staðan 12-41 heimakonur í vil en staðan var 21-55 í hálfleik en íslenska liðið var engu að síður mun ákveðnara en í fyrsta leikhluta.
Margrét Rósa Hálfdánardóttir var með 9 stig í hálfleik og Berglind Gunnarsdóttir með 7.
Svíar opnuðu þriðja leikhluta 10-0 og Jón Halldór tók leikhlé fyrir íslenska liðið. Hildur Björg Kjartansdóttir gerði svo fyrstu stig Íslands í síðari hálfleik úr þriggja stiga skoti og minnkaði muninn í 24-67. Svíar gerðu næstu 18 stig gegn tveimur frá Íslandi og leiddu 26-85 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Fjórði leikhluti varð aldrei spennandi eins og gefur að skilja og Svíar höfðu að lokum sigur, 41-114. Margrét Rósa Hálfdánardóttir var best íslensku leikmannanna í dag með 11 stig og 6 fráköst. Dagbjört Samúelsdóttir bætti við 9 stigum og Berglind Gunnarsdóttir gerði 7 stig og tók 4 fráköst og Hildur Björg Kjartansdóttir var einnig með 7 stig.
Ísland leikur tvo leiki á morgun í flokki U18 kvenna, þann fyrsta kl. 7.00 að íslenskum tíma gegn Norðmönnum og aftur kl. 15:00 gegn Dönum.
Myndasafn úr leiknum
Mynd/ Margrét Rósa Hálfdánardóttir umkringd fjórum varnarmönnum Svía. Margrét Rósa varð 17 ára gömul í dag og óskar Karfan.is henni innilega til hamingju með dagin.