spot_img
HomeFréttir12 stiga tap fyrir Svíum

12 stiga tap fyrir Svíum

{mosimage}

(Jón Arnór var stigahæstur í gær)

Jón Arnór var stigahæstur gegn Svíum.Íslenska karlalandsliðið tapaði með 12 stigum, 63-75, fyrir Svíum í lokaleik sínum á æfingamóti í Alkmaar í Hollandi í gær. Íslenska liðið endaði þar með í þriðja sæti á mótinu, vann Belgíu en tapaði fyrir Hollandi og Svíþjóð. Það var einkum slæmur annar leikhluti sem fór með leikinn hjá íslenska liðinu gegn Svíum en hann tapaðist 9-23 eftir að íslenska liðið hafði verið 19-14 yfir eftir 1. leikhlutann. Jón Arnór Stefánsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 12 stig. 

Sigurður Ingimundarson, þjálfari íslenska liðsins, dreifði spilatímanum á íslenska hópinn í leiknum við Svía og enginn í liðinu spilaði í meira en 21 mínútu. Íslenska liðið byrjaði leikinn ágætlega og kom sér síðan aftur inn í leikinn í fjórða leikhlutanum eftir að hafa tapað 2. og 3. leikhluta með 21 stigi (26-47). Það er stutt á milli leikja og strax eftir leik lagði íslenski hópurinn á stað til Dublin í Írlandi þar sem liðið spilar við Norðmenn í dag og síðan heimamenn á morgun. Það eru tveir síðustu æfingaleikir liðsins fyrir Evrópukeppnina.

 „Þetta var slakt hjá báðum liðum í dag,“ sagði Sigurður Ingimundarson, landsliðsþjálfari, í samtali við Karfan.is í gær. „Ég er samt ánægður með hvar við erum og það er allt annar bragur á liðinu frá Norðurlandamótinu,“ sagði Sigurður. „Þegar við náum okkar dampi þá erum við að spila á mjög háu leveli en við þurfum meiri stöðugleika allan leikinn,“ sagði Sigurður. 

Stig Íslands í leiknum við Svía:

Jón Arnór Stefánsson 12

Fannar Ólafsson 10

Logi Gunnarsson 9

Jakob Sigurðarson 8

Helgi Már Magnússon 8

Brenton Birmingham 4

Hlynur Bæringsson 3

Páll Axel Vilbergsson 3

Friðrik Stefánsson 3

Magnús Þór Gunnarsson 2

Kristinn Jónasson 1

Egill Jónasson skoraði ekki í leiknum.

Jón Norðdal Hafsteinsson lék ekki með vegna meiðsla.

 

Tveir leikir eru eftir af æfingaferð landsliðsins sem nú er statt í Dublin á Írlandi. Leikið verður gegn heimamönnum, Írum, og svo Norðmönnum áður en strákarnir halda heim á leið.

 

Frétt að stórum hluta til af www.kki.is

Fréttir
- Auglýsing -