spot_img
HomeFréttir11 Leikmenn sem deildirnar eiga eftir að sakna

11 Leikmenn sem deildirnar eiga eftir að sakna

 

Dominos deildir karla og kvenna voru frábærar á síðasta tímabili. Mikið var þar af góðum leikmönnum. Eftir að leikmannamarkaðurinn opnaði aftur nú í sumar hafa margir þessara leikmanna ákveðið að róa á önnur mið á næsta tímabili. Meðal annarra eru þar bestu leikmenn beggja deildanna, þau Haukur Helgi Pálsson og Helena Sverrisdóttir.

 

Við viljum taka það fram að enn á margt enn eftir að koma í ljós, en við vinnslu þessarar samantektar fengust engin svör varðandi hvað nokkur stór nöfn í íslenskum körfubolta ætluðu að gera á næsta tímabili.

 

Einnig viljum við taka það fram að þó að þarna séu 8 karlmenn og aðeins 3 kvennmenn þá þýðir það einungis það að eftir okkar bestu upplýsingum er önnur deildin að halda betur í sína leikmenn en hin.

 

Hérna eru þeir 11 leikmenn sem við eigum eftir að sakna mest úr Dominos deildunum komandi tímabil.

 

Haukur Helgi Pálsson

Frá: Njarðvík

Til: Rouen (Frakkland)

 

Hauk Helga þarf vart að kynna fyrir neinum áhanganda íslensks körfuknattleiks. Átti hreint svakalegt tímabil í fyrra þar sem að hann var meðal annars valinn verðmætasti leikmaður Íslandsmótsins. Skoraði 18 stig, tók 8 fráköst og gaf 4 stoðsendingar að meðaltali í leik. Mætti segja að meiðsl og annað hafi hægt áhonum í upphafi tímabilsins, en kappinn endaði tímabilið á blússandi siglingu og var á endanum aðeins 1 leik frá því að slá meistara síðustu þriggja ára, KR, úr leik í úrslitakeppninni

 

 

Ægir Þór Steinarsson

Frá: KR

Til: CB Penas Huesca (Spánn)

 

Við gerum okkur grein fyrir því að það var í endaðan febrúar sem að Ægir flaug á vit ævintýrana til Spánar og að kannski voru (miðað við spilamennsku hans þar ytra) líkurnar á að hann yrði heima þetta tímabilið litlar. Þó viljum við nefna hversu góður Ægir var fram að þeim punkti með þeim svarthvítu. 11 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar að meðaltali í þeim 19 leikjum sem að hann lék fyrir liðið í fyrra.

 

 

Jón Axel Guðmundsson

Frá: Grindavík

Til: Davidson (Bandaríkin)

 

Þó ungur að árum sé hann enn er langt síðan að Jón Axel sannaði sig sem einn allra besti leikmaður deildarinnar. Sem leikmaður í sögulega (eru venjulega með mun betri) lélegu liði Grindavíkur var hann nánast einn um það að koma þeim í áttunda og síðasta sætið í úrslitakeppninni. 16 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar að meðaltali í leik.

 

 

Kári Jónsson

Frá: Haukum

Til: Drexel (Bandaríkin)

 

Besti ungi leikmaður deildarinnar frá síðasta tímabili. Reyndar einn besti leikmaðurinn í heildina líka. Var bæði valinn í úrvalslið deildarinnar, sem og var hann einn 5 leikmanna sem fengu atkvæði sem besti leikmaður deildarinnar. 17 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar að meðaltali í leik fyrir Haukalið sem að fór alla leið í úrslitin.

 

Margrét Kara Sturludóttir

Frá: Stjörnunni

Til: Í leyfi

 

Hafði verið frá í nokkur tímabil áður en að hún mætti aftur með Stjörnunni á síðasta tímabili. Ekki sveik endurkoman. 11 stig, 13 fráköst og 4 stoðsendingar að meðaltali í leik. Þar sem að hún var þriðja frákasta hæst, fimmta stoðsendingahæst og í heildina sjötti framlagshæsti leikmaður deildarinnar.

 

 

Helena Sverrisdóttir

Frá: Haukum

Til: Í leyfi

 

Umdeilanlega besti körfuknattleiksleikmaður allra tíma ákvað að blessa deildina með nærveru sinni á síðasta tímabili bæði sem leikmaður og þjálfari eftir að hafa eytt árum í háskóla og atvinnumennsku. Gerði lið Hauka að deildarmeisturum á síðasta tímabili. Það fór þó úrskeiðis hjá þeim að landa þeim stóra, en þar áttust þær við meistaralið síðustu tveggja (nú þriggja) ára, Snæfell, í sögulegri (þó ekki væri nema fyrir þann fjölda sem mætti á leikina) rimmu sem fór alla leiðina í oddaleik. Besti leikmaður deildarinnar í fyrra. 24 stig, 13 fráköst, 7 stoðsendingar og 34 framlagsstig að meðaltali í leik.

 

 

Helgi Már Magnússon

Frá: KR

Til: Hættur 

 

Einn besti leikmaður deildarinnar síðustu ár ákvað að leggja skóna á hilluna eftir þetta tímabil. Gaf það meira að segja út áður en að tímabilið var búið og það líkar okkur. Það var gaman að geta fylgst með síðasta tímabili þessa mikla keppnismanns vitandi það að þetta væri í síðasta skiptið. Tímabilið spilaði hann þó ekkert á síðustu bensíndropunum. Þvert á móti. 12 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar að meðaltali í leik á síðasta tímabili þar sem að hann var einnig valinn í úrvalslið deildarinnar sem og var hann einn af þeim fimm leikmönnum sem fengu atkvæði sem besti leikmaður deildarinnar.

 

Valur Orri Valsson

Frá: Keflavík

Til: Florida Institude of Technology (Bandaríkin)

 

Orðið á götunni er að sumarið fyrir síðasta tímabil hafi varla verið hægt að ná í Val sökum æfinga. Það sýndi sig svo sannarlega á tímabilinu. Ef að deildin veitti verðlaun fyrir mestu framfarir þá er okkar peningur á að Valur hefði átt þau skilið eftir þá stökkbreytingu sem hann framkallaði sem leikmaður í fyrra. Liði Keflavíkur hafði ekki verið spáð góðu gengi fyrir tímabilið, en svo kom annað á daginn þegar að þeir fóru að spila. Valur stjórnaði hröðum og skemmtilegum sóknarleik Keflavíkur eins og herforingi á síðasta. Var valinn besti leikmaður Keflavíkur, en liðið sem endaði í þriðja sæti deildarinnar, var slegið út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. 13 stig 5 fráköst og 6 stoðsendingar að meðaltali í leik.

 

Michael Craion

Frá: KR

Til: Frakklands

 

Craion hefur verið frábær alveg frá því að hann kom fyrst til Keflavíkur fyrir þrem árum. Algjör lykil leikmaður í meistaraliði KR síðustu 2 árin. Valinn besti erlendi leikmaður deildarinnar öll þau ár sem hann hefur verið hér. Var einnig valinn prúðasti leikmaður deildarinnar í fyrra. 23 stig, 11 fráköst, 3 stoðsendingar og 29 framlagsstig í heildina að meðaltali í leik á síðasta tímabili. Einnig frábær varnarmaður.

 

 

Ragnar Nathanaelsson

Frá: Þór

Til: Caceres Patrimonio de la Huminidad (Spánn)

 

Ragnar var frábær í fyrra. 13 stig, 12 fráköst, 2 varin skot og 22 framlagspunktar að meðaltali í leik. Var að sjálfsögðu valinn í úrvalslið deildarinnar. Leiddi lið Þórs bæði í úrslitakeppnina sem og í bikarúrslitaleikinn.

 

 

Sandra Lind Þrastardóttir

Frá: Keflavík

Til: Danmerkur

 

Sandra var burðarás í ungu og skemmtilegu liði Keflavíkur í fyrra. Að vísu komst liðið ekki í úrslitakeppnina (í fyrsta skipti), en hún átti hinsvegar mjög flott tímabil. 9 stig, 10 fráköst og 2 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Fréttir
- Auglýsing -