spot_img
HomeFréttir11.11.11: Teitur ætti að kunna vel við sig í kvöld

11.11.11: Teitur ætti að kunna vel við sig í kvöld

11. nóvember 2011 eða 11.11.11 og Teitur Örlygsson á leik! Teitur verður við stjórnartaumana hjá Stjörnunni í kvöld þegar Garðbæingar taka á móti Snæfell í Iceland Express deild karla. Teitur lék ávallt með Njarðvíkingum nr. 11 og er enn þann dag í dag mjög umhugað um þessa tölu, þó sérstaklega í dag.
 
,,Ég var að rifja upp í gær hvað mér leið alltaf vel þegar ég var að spila með Njarðvík og það kom leikur upp á ellefta degi mánaðarins. Við töpuðum ekki mörgum leikjum þegar 11 kom upp. Ég vil líka halda því fram að í dag, 11.11. 2011, fæðist Messías enda er þetta stórkostleg tala og svo á mamma einmitt afmæli,“ sagði Teitur léttur í bragði þegar Karfan.is hafði samaband við hann. Hvaðan er samt þessi hiti fyrir tölunni 11 kominn?
 
,,Júlíus Valgeirsson lék alltaf nr. 11 í Njarðvík, þegar ég var að koma inn í þetta þá voru þessir búningar á vappi hjá mönnum en þegar Júlli hætti endanlega ákvað ég að eigna mér búninginn. Þetta varð svo klikkað, fólk sem er númer 11 er ekki eins og aðrir, því þykir ofboðslega vænt um töluna sína, nefni t.d. Grétar Hermannsson í Njarðvík og blakmanninn Leif Hermannsson en við tveir á einhverjum Smáþjóðaleikunum stofnuðum félag fyrir þá sem leika nr. 11,“ sagði Teitur en gerðist öllu þjálfaralegri þegar við spurðum hann út í leik kvöldsins gegn Snæfell á þessum ellefta degi mánaðarins.
 
,,Það kemur ekkert annað til greina en að heiðra daginn með sigri, við erum nýbúnir að tapa gegn Snæfell hér heima og það er alger óskastaða að fá að kvitta í kvöld fyrir þann leik. Ég man bara þegar maður var að spila sjálfur og tapaði þá vildi maður strax daginn eftir mæta liðinu sem hafði sigur gegn manni,“ sagði Teitur en við slepptum ekki af honum takinu fyrr en við forvitnuðumst aðeins um stöðuna á Jovan Zdravevski.
 
,,Hann æfði ekkert í gær en æltar að prufa sig áfram í upphitun í kvöld.“
 
Fréttir
- Auglýsing -