09:15
{mosimage}
Og þá er komið að toppsætinu og öruggu sæti í Iceland Express deildinni að ári. Þór Akureyri hlaut yfirburða kosningu í það sæti, var aðeins 5 stigum frá fullu húsi.
Þórsarar komu inn í íslenskan körfubolta á sjöunda áratugnum, haustið 1966 hófu þeir leik í næst efstu deild og sigruðu á fyrsta ári og léku næstu 6 tímabilin í efstu deild. Þeir voru svo aftur í efstu deild síðasta árið sem hún hét 1. deild og áttu sæti fyrstu Úrvalsdeildinni 1978-79 en féllu. Þeir komu svo aftur upp 1987 og voru í Úrvalsdeild í 5 tímabil en féllu svo og voru 2 ár í 1. deild og haustið 1994 komu þeir upp og hófst lengsta vera þeirra í efstu deild þá en henni lauk ekki fyrr en haustið 2002 þegar liðið dró sig úr keppni í efstu deild vegna peningavandræða. Liðið skráði sig til leiks í 2. deild sem þeir sigruðu örugglega og léku svo 2 ár í 1. deild og léku síðasta tímabil í efstu deild. Þórsarar hafa fengið til sín bandaríska leikmanninn Kevinn Sowell, Baldur Stefánsson frá Tindastól, Tómas Hermannsson frá KR, Birki Heimisson frá Bandaríkjunum og Helga Hrafn Þorláksson frá Fjölni en misst Sigurð Sigurðsson til Keflavíkur, Helga Frey Margeirsson til Randers í Danmörku, Mark Woodhouse til Englands, Mario Myles til Bandaríkjanna, Ragnar Jónsson hættur, Hermann Daða Hermannsson til Skallagríms og Bjarka Oddsson til KR Hrafn Kristjánsson er á þriðja ári með liðið en hann hefur þjálfað KFÍ áður. Þjálfari toppliðsins samkvæmt spánni svaraði á eftirfarandi hátt Hvaða leikmaður/menn í þínu liði eiga eftir að koma á óvart í vetur?Margir koma til greina, strákarnir eru búnir að æfa vel og eru hungraðir. Þó held ég að Birkir Heimisson, strákur sem spilaði í High School í USA, gæti komið mörgum á óvart. Birkir hefur bætt sig mikið, bæði síðasta vetur og líka með miklu erfiði í sumar. Einn af þessum hávöxnu, fjölhæfu leikmönnum sem getur gert sitt lítið af hverju. Hvaða íslensku leikmönnum er vert að fylgjast með í þínu liði?
Mér persónulega finnst vert að fylgjast með þeim öllum en þó held ég að allir þeir sem eitthvað fylgjast með körfunni hljóti að fylgjast með Óðni Ásgeirssyni og hvernig honum gengur að ná sér af sínum erfiðu meiðslum. Enn er þó nokkuð í land en maður sér bætingu með hverjum deginum.
Er liðið með erlendan leikmann?
Þegar lagt var upp í þessa vertíð var það ætlun okkar að taka þennan slag án útlendings. Á sama tíma hefur það alltaf verið á hreinu að allt kapp skyldi lagt á að fara upp þetta árið. Helst myndi maður vilja að liðin myndu berjast um þessi lausu sæti með sínum íslensku leikmönnum en eins og allir vita er því ekki að heilsa. Nú þegar fer að líða að móti höfum við komist að þeirri niðurstöðu að okkur sé ekki stætt á öðru en að fá til okkar bandarískan leikmann. Þessi ákvörðun er tekin í ljósi þess að allir okkar helstu keppinautar hafa styrkt sig á þennan hátt og einhver liðanna tefla fram jafnvel 2-3 erlendum leikmönnum.
Leikmaðurinn heitir Kevin Sowell og leikur stöðu skotbakvarðar. Það er stefna okkar að leika hraðan leik og hann kemur til með að gefa okkur nýja vídd í þá áttina.
Hefur undirbúningur liðsins fyrir tímabilið verið ásættanlegur?
Já og Nei, þessi töf á tímabilinu gerir manni óneitanlega erfitt fyrir. Það er erfitt að viðhalda eibeitingu þegar skyndilega er mánuði lengra í fyrsta leik. Einnig reynist oft erfiðara (og kostnaðarsamara) fyrir okkur að fá nægilega marga æfingaleiki. Þó hjálpar KB og Greifamótið til, það er framtak sem við erum mjög stoltir af hér fyrir norðan.
Þó sýnist mér það á drengjunum að þeir verði óárennilegir þegar kemur að fyrsta leik.
Hvað er einkennandi fyrir leikstíl þíns liðs?
Held að ósérhlífni og baráttuhugur séu þeir kostir sem eru einkennandi fyrir mína leikmenn. Einnig vil ég meina að á góðum degi séum nokkuð hressir varnarlega.
Hvert er markmiðið fyrir tímabilið?
Markmiðið er skýrt, efsta sæti í 1. deild í lok deildakeppni.
Hvaða lið á eftir að koma á óvart í vetur?
Veit ekki endilega hvort eitthvað lið eigi eftir að koma sérstaklega á óvart, deildin er í heildina mjög sterk. Þó held ég að Stjarnan sé með gríðarlega sterkt lið þetta tímabilið og verður fyrsti leikur tímabilsins hjá okkur í Garðabænum því enn skemmtilegri fyrir vikið. Það er svo sem hugsanlegt að einhverjir geri ekki ráð fyrir þeim og láti þannig koma sér á óvart, þeir verða við toppinn.
Hvaða lið vinnur deildina?
Þór Akureyri.
Hvernig sérð þú 1. deildina fyrir þér í framtíðinni?Erfitt að segja, þetta er handónýtt eins og þetta er núna. Einnig er ég ekkert sérstaklega fylgjandi því að fækka í úrvalsdeildinni nema leikjafyrirkomulagin verði breytt töluvert. Við megum ekki við því að fækka leikjum, þeir voru of fáir fyrir.