spot_img
HomeFréttir1 á 1: Kristinn Friðriksson

1 á 1: Kristinn Friðriksson

KF

Fullt nafn: Kristinn Geir Friðriksson
Aldur: ’71 módel
Félag: Tindastóll
Hjúskaparstaða: Í hjúskaparstöðu, spila þar leikstjórnanda en fæ ekki að kalla mín eigin kerfi, frekar en aðrir karlmenn í sömu stöðu.

Happatala: Hef alltaf kunnað vel við sex.

 

Hvenær hófst þú að stunda körfubolta og hvar? Ég man ekki hvenær, líklega í kringum ’82-’83, en mig rámar að það hafi verið einhverstaðar í Keflavík.

 

Hver var fyrsta fyrirmyndin þín í körfunni? Tvímælalaust Stefán Arnarsson sem kynnti mig fyrir einum besta vini mínum í körfubolta; spjaldinu. Hefur verið góður vinskapur alla tíð síðan.

 

Hverjir eru bestu íslensku leikmennirnir í karla og kvennaflokki frá upphafi? V. Snjólfur Ingimundarsson. (skorari af Guðs náð, næstum því af jafn mikilli náð og ég sjálfur J), Teitur Ö. (besti alhliða leikmaður sem sést hefur mynd af í Íslensku vegabréfi) og Jón Kr. (leikstjórnandi sem á sér ekki jafningja, hvorki fyrr né síðar í þessari deild að ég held). Þetta er kannski þeir þrír sem standa uppúr frá „gamla skólanum“, sem virðist hafa verið lagður af einhverra hluta vegna. Það eru einnig margir góðir drengir sem hafa komið eftir þeirra tíð en enginn sem hefur náð að toppa þá í íslensku deildinni, enda hefur deildin breyst mikið.
Anna María Sveins hlýtur að teljast sú allra snjallasta í faginu frá upphafi kvennaboltans, gæti ekki nefnt aðra í hóp með henni þó mig dauðlangaði til.

 

Besti erlendi leikmaðurinn sem leikið hefur á Íslandi? Ég hef mjög skrýtna tilhneigingu þegar kemur að þessum útlendingum sem hér spila; ég gleymi þessum blessuðu mönnum um leið þegar þeir setjast uppí flugvélina heim, en þeir sem hafa snúið aftur til starfa hingað á Frón og sitja þ.a.l. enn í minninu og eru því líklegir til að hreppa hnossið eru Sandy Anderson (frákastari af Guðs náð), Jónatan Bow (klár leikmaður sem nálgaðist leikinn með vísindalegum hætti), Frank Booker (skotmaður sem virtist hafa sæmilegt sjálfstraust í skotum utan að velli), Rondey Robinson (vinnuhestur sem var með 50 hestafla vél) og Shawn Meyers (leikmaður sem virðist hafa fundið einhvers konar lífelixír sem stöðvar öldrun og eykur stökkkraft. Hann er ennþá að og sjást engin merki um að hann muni nokkurn tíma hætta). Þessir leikmenn koma til greina hjá mér en ég held að Damon Johnson eigi titilinn skilið; hann bjó að bestu eiginleikum þeirra sem hafa verið taldir upp og úr varð gríðarlega fjölhæfur leikmaður; mikill íþróttamaður.

 

Efnilegasti leikmaður landsins um þessar mundir? Það eru margir góðir drengir að spila í dag en ég fæ því miður ekki að sjá nægilega marga spreyta sig. Það eru strákar í KR, Fjölni og Keflavík sem eru nokkuð sprækir en ég held að Jóhann og Guðmundur í UMFN séu efnilegastir.

 

Hver var fyrsti þjálfarinn þinn? Stefán Arnarsson, eini maðurinn sem veit of mikið um körfubolta; körfuknattleikssnillingur!

 

Besti þjálfarinn á Íslandi í dag? Útilokað að svara þessu með einu nafni. Það er sá þjálfari sem nær að miðla sínum tilfinningum og áherslum til leiksins þannig að leikmenn skilji og verði betri í kjölfarið.

 

Uppáhalds NBA leikmaðurinn þinn? Fylgist lítið sem ekkert með þeirri ágætu deild, en Kurt Rambis var góður og var með töluvert fríðari hormottu en Chuck Nevitt.

 

Besti leikmaður NBA deildarinnar frá upphafi? Fyrir utan „þann besta“ verð ég að nefna Barkley, Bird, Vinnie Johnson, Kobe, Magic, McHale, Petrovic og Fletch F. Fletch, sem spilaði eitt tímabil hjá Lakers í treyju númer 99 að mig minnir.

 

Hefur þú farið á NBA leik?  Aldrei

 

Sætasti sigurinn á ferlinum(leikmaður eða þjálfari)? Þeir hafa verið of margir til að gera upp á milli.

 

Sárasti ósigurinn(leikmaður eða þjálfari)? Þeim leikjum reyni ég að gleyma sem fyrst, en þeir hafa verið nokkrir sárir. Mér er illa við að tapa í Ólsen-Ólsen þannig að flest töp í körfubolta eru sár.

 

Þín uppáhalds íþrótt að frátöldum körfubolta? Snóker; að spila og horfa á í sjónvarpinu. Svo er einnig gaman að tefla.

Með hvaða félögum hefur þú leikið? Þau hafa verið nokkur, Keflavík, Þór Ak., BK Odense, Skallagrím, Tindastól og Grindavík.

 

Uppáhalds:
kvikmynd:
Það er svo margar myndir sem læðast inní hugarfylgsnið núna og ég vil móðga sem fæstar, enda kvikmyndasjúklingur frá unga aldri. Hérna eru nokkrar sem náðu að smjúga sér leið inn: A Clockwork Orange, Dr. Strangelove or: How I Learned To Stop Worrying And Love The Bomb, Apocalypse Now, Citizen Kane, Full Metal Jacket, Raising Arizona, Oh, Brother Where Art Thou, 12 Monkeys, Time Bandits, allar Monty Python-myndirnar,The Big Lebowski, Smoke, Henry: A Portrait of a Serial Killer, Goodfellas, The Ladykillers frá árinu 1955, All Quiet on the Western Front frá ’30, Greed, The Royal Tenanbaums og svo auðvitað næstum allar myndir sem Woody Allen hefur leikstýrt, en hann er að mínu viti einn allra besti kvikmyndaleikstjóri fyrr og síðar. Maður ætti kannski líka að minnast á grínmyndirnar Top Secret, Airplane, Fletch, Three Amigos og Police Squad þættina, en þessar myndir geta látið mig hlægja enn þann dag í dag.
leikari: Hef aldrei getað verið með neinn uppáhaldsleikara en ég safnaði sérstaklega bíóprógrömmum með Peter Sellers, Burt Reynolds, Lee Van Cleef, Gene Hackman, Charlie Chaplin og Ole Söltoft, án þess að þeir væru í einhverju uppáhaldi hjá mér.
leikkona: Safnaði ekki sérstaklega í þessum dálki, en ég hef alla tíð verið mjög hrifin af Helen Mirren, Judy Dench, Judy Davis og Dianne Wiest.
bók:  Þetta er einnig langur listi, en samt ekkert á við kvikmyndirnar;  Inside the Third Reich, Sláturhús 5, High Treason, Blind Ambition og Alfræðiorðabækurnar mínar sem Herbert Guðmunds seldi mér um árið.
matur:  Sem bragðast vel og er ekki nagdýr.
matsölustaður:  Á ekki þannig stað.
lag: Of mörg til að velja eða telja upp; Red Right Hand með Nick Cave var það fyrsta sem hoppaði inn í hausinn.
hljómsveit: Held ekki uppá neina sérstaka hljómsveit, en Nick Cave og Tom Waits eru í töluverðu uppáhaldi hjá mér.
staður á Íslandi: Bústaður foreldra minna í Borgarfirði.
staður erlendis: Það er alltaf gaman að ferðast út fyrir landsteinana.
lið í NBA: Hélt með Lakers á sínum tíma en hef enga sérstaka skoðun á þessu núna.
lið í enska boltanum: Liverpool.
hátíðardagur: Þorláksmessa.
alþingismaður: Hef mestar mætur á Steingrími J. Sigfússyni án þess þó að vera mikið sammála honum.

 

Hvernig undirbýrð þú þig fyrir leiki? Hef ekki neina sérstaka hefð þar. Þegar ég var að spila reyndi ég að ímynda mér það sem átti að gerast í leiknum fyrir leiki, núna hef ég ekki sömu völd þannig að ég reyni að biðja aðra um að gera það sem ég vil sjá gerast.

 

Hvort má læra meira af sigur- eða tapleikjum? Maður ræður því sjálfur held ég en venjulega eru menn viljugri til náms eftir tapleiki, ásamt því að þeir bjóða uppá meiri lærdóm.

 

Furðulegasti liðsfélaginn? Það er merkilegt hvað þeir hafa verið „ófurðulegir“ þegar ég hugsa útí það en Shawn Meyers var … ja, sérstakur. En hann og Lárus Dagur í samræðum verður að teljast eitt af undrum náttúrunnar.

 

Besti dómarinn í IE-deildinni? Jón Guðmundsson.

 

Erfiðasti andstæðingurinn? Öll þau lið sem spila betur en mitt lið hverju sinni.

 

Þín ráð til ungra leikmanna? Að vera góður í NBA Live gerir þig ekki að góðum körfuboltamanni.

 

Fréttir
- Auglýsing -