Frank Booker meðal þátttakanda í stóru 3x3 móti í San Antonio

30.mar.2018  14:20 Oli@karfan.is

„Aðalmarkmiðið er alltaf NBA“

Hinn islenski Frank Aaron Booker Jr lauk háskólaferli sínum á dögunum þegar lið hans South Carolina rétt missti af March Madness. Booker hefur átt frábært lokaár með skólanum og var á meðal bestu þriggja stiga skytta SEC-deildarinnar. 

 

Frank hefur verið boðið að taka þátt í stóru móti um páskahelgina þar sem háskólaleikmenn keppa þrír á móti þrem. Frank er einungis einn af fjórum úr sterkri SEC-deild háskólaboltans sem var boðið að vera með. Verðlaunin eru 100.000 dollarar. Þátttakendur eru leikmenn sem hafa lokið sínum háskólaboltaferli. 

 

Í viðtali við The State segir Booker að hann stefni á atvinnumennsku í sumar. Hann sjái fram á tækifæri í Ítalíu og Grikklandi en NBA sé þó hans markmið númer 1. Booker endaði háskólaferil sinn með South Carolina en hann lék tvö ár með Oklahoma Sooners áður en hann fór til Florida Atlantic og svo til South Carolina. 

 

Hann segir ákvörðunina að fara til South Carolina hafa verið þá bestu sem hann hafi tekið og hann óskaði þess að hafa farið þangað á sínu fyrsta ári og spilað allan háskólaboltaferilinn þar. Booker átti sitt langbesta ár á ferlinum hjá Gamecooks og var með 12 stig að meðaltali í leik, auk þess var hann með 85 þriggja stiga körfur á tímabilinu og leiddi lið sitt þar. 

 

Booker hefur áður sagt frá því hann vilji spila með íslenska landsliðinu. Hann var kallaður í æfingahóp fyrir Eurobasket 2015 en gat ekki tekið þátt vegna skuldbindingar sinnar við Oklahoma háskólann. Hvort hann eigi möguleika á að vera með liðinu í næsta landsleikjaglugga í júní er óljóst en Frank er að minnsta kosti ekki skuldbundinn neinum skóla á þeim tíma. Frank Booker Jr er fæddur á Íslandi en hann er sonur Frank Booker sem spilaði með ÍR, Val og Grindavík.