Missir fyrir Grindvíkinga:

Ingvi stefnir til Bandaríkjana á næsta tímabili

28.mar.2018  08:30 Oli@karfan.is

Ingvi Þór Guðmundsson leikmaður Grindavíkur mun ekki leika með liðinu áfram en hugur hans leitar til Bandaríkjana þar sem stefnan er að setjast á skólabekk og spila körfubolta samhliða. Þetta staðfestir hann sjálfur í samtali við Karfan.is. 

 

„Það er á planinu að fara út í skóla. Er með tvo skóla í sigtinu sem ég á eftir að skoða betur. Mun væntanlega skýrast eitthvað á næstu vikum“ sagði Ingvi. 

 

Ingvi var gríðarlega mikilvægur hlekkur í liði Grindavíkur sem féll úr leik í átta liða úrslitum gegn Tindastól þetta tímabilið. Hann var með 10,9 stig, 4 fráköst og 3,5 stoðsendingar á 26 mínútum að meðaltali í leik fyrir Grindavík. Auk þess var hann hluti af U20 landsliði Íslands sem lék í A-deild Evrópumótsins síðasta sumar og verður væntanlega í stóru hlutverki í sama liði næsta sumar. 

 

Ljóst er að Ingvi stefnir þar með í að feta í fótsport bróður síns Jóns Axels sem leikur með liði Davidson í Bandaríska háskólaboltanum. Fróðlegt verður að sjá hvaða skóli fær að njóta krafta Ingva en það mun koma í ljós á næstunni.