Dominos deild karla:

Sópur í Síkinu

23.mar.2018  22:23 davideldur@karfan.is

Tindastóll 84 - 81 Grindavík

 

Tindastóll sópaði Grindavík út úr 8-liða úrslitum Dominos deildar karla í Síkinu í kvöld en það var langt frá því að vera létt verk.

 

Leikurinn í Síkinu í kvöld var engin göngutúr í skóginum fyrir heimamenn í Tindastól.  Stólar höfðu komist í 2-0 í einvígi liðanna með frábærum sigri í Grindavík í síðasta leik en það var eins og þeir mættu ekki alveg tilbúnir til leiks í kvöld og gestirnir úr Grindavík létu þá finna vel fyrir sér.  Gestirnir komust í 12-18 en Tindastóll kom tilbaka með þristum frá Axel Kára og Viðari.  Jóhann Árni sá til þess að gestirnir voru yfir eftir fyrsta leikhluta með þrist í lokin 22-23 fyrir gestina.  Annar leikhluti spilaðist svipað, gestirnir náðu að rykkja frá en Tindastóll svaraði með ágætis baráttu í lokin og náðu að jafna í hálfleik eftir að stela boltanum í lokasókn Grindvíkinga 41-41.

 

Seinni hálfleikurinn byrjaði á sömu lund, gestirnir komust í smá forystu en Arnar Björnsson og Axel Kára sáu til þess að hún varð aldrei mjög mikil.  Stólarnir voru svo sterkari á lokasprettinum og gestirnir hentu frá sér boltanum þegar 22 sekúndur lifðu leiks og heimamenn kláruðu leikinn á vítalínunni.

 

Þáttaskil

Leikurinn var jafn og spennandi fram á lokasekúndurnar eins og sá fyrsti en misheppnuð sending Bullock á Sigga Þorsteins í lokin reyndist dýr.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki

Öll tölfræði liðanna var gríðarlega jöfn en heimamenn hittu aðeins betur og það telur.

 

 

 

Hetjan

Arnar Björnsson var frábær í kvöld og átti oftast svar þegar aðrir hikstuðu í sókninni.  Axel skilaði líka mikilvægum stigum í hús.  Siggi Þorsteins var besti maðurinn á vellinum með 20 stig og 7 fráköst en það dugði ekki til

 

 

Kjarninn

Tindastóll náði að sópa Grindavík út úr einvíginu 3-0 en erfitt var það, sérstaklega í Síkinu

 

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

 

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna

 

Mynd: Bullock fær góðar móttökur hjá Tindastólsvörninni

 

Viðtal: