Umfjöllun og myndasafn frá Akureyri:

Fjölnissigur í spennuleik

18.mar.2018  23:29 Oli@karfan.is

 

 

Þór 66 – Fjölnir 68

 

1. leikhluti.


Taugaveiklun einkenndi fyrstu sóknir liðanna enda mikið í húfi.


Þórsarar brutu samt ísinn með körfu og víti og tóku forystuna. Varnarfráköst sem Þórsarar hafa hirt hafa verið mikilvæg og er meginástæðan fyrir forystu heimastúlkna í fyrsta leikhluta.  Fyrir utan náttúrulega að setja niður skotin. Þórsarar byrjuðu miklu betur og náðu fljótlega góðri forystu sem Fjölnir náði að minnka í tvö stig 9 - 3 í 9 - 7 en þá bættu Þórsarar í aftur og náðu afgerandi forystu sem endaði í 12 stigum eða  21 9 í lok leikhlutans en hefði getað verið talsvert meiri ef ekki hefðu komið nokkrar slæmar sendingar.


2. leikhluti. 

 

Annar leikhluti byrjar eins og sá fyrsti þar sem liðin skoruðu lítið í upphafi en nú eins og í fyrsta leikhluta er þetta spurningin um það hvort liðið nær fyrr tökum á taugunum.  Þórsarar höfðu samt enn vinninginn í fráköstum í upphafi leikhlutans. Um miðjan annan leikhluta óx gestunum ásmegin og minnkuðu muninn í 8 stig 23 - 15 og fóru að taka sóknarfráköst á þessum tíma en Þórsarar höfðu verið einráðar undir sinni körfu fram að því.    Fjölnir gerði meira en að taka sóknarfráköst því þær fóru að hitta betur og settu niður nokkrar dýrmætar körfur. Á sama tíma byrjuðu heimastelpurnar að reyna þriggja stiga skot sem höfðu ekki verið reynd í fyrsta leikhluta en því miður fóru þau ekki niður. Þegar 6 mínútur voru búnar af leikhluta númer 2 voru heimastúlkur búnar að skora 4 stig á móti 15 stigum gestanna.  Þetta var full mikil gestrisni að mati áhorfenda. Heimastúlkur girtu sig í brók og héldu forystunni út leikhlutann en naumt var það því einungins eitt stig skildi liðin að eftir 20 mínútur. 33 32. Gríðarlega spennandi leikur. 

 

3. leikhluti 
 

Það var engin taugaveiklun í liðunum í upphafi þriðja leikhluta og settu leikmenn stig í öllum regnbogans litum.  Þórsarar voru þó alltaf með yfirhöndina og höfðu rifið sig upp og höfðu aftur betur undir sinni körfu og hirtu varnarfráköst auk þess að sækja nokkur sóknarfráköst sem ekki höfðu verið mörg í fyrstu tveimur leikhlutunum.  Undir lok leikhlutans fjaraði undan stigaskorinu en leikurinn enn í járnum og spennandi. Sex stig skildu liðin að í lok þriðja leikhluta 53 - 47. 

Þórsarar hafa alltaf verið á undan að skora í leiknum og hafa Fjölnisstelpurnar því elt allan tímann.  Vonum að svo verði einnig í fjórða og síðasta leikhlutanum.

 

4. leikhluti.

 

Fjölnisdömurnar gerðu áhlaup í upphafi leikhlutans og minnkuðu muninn í 1 stig en þá tóku heimastúlkur við sér og bættu aftur í juku muninn í 4 stig og næstu mínútur var munurinn 2 - 4 stig og því gríðarleg spenna í húsinu.  Fjölnisstúlkur náðu í fyrsta sinn að komast yfir í leiknum þegar 1 mínúta og 47 sekúndur voru eftir er þær komust í 63 - 64. Þær bættu svo við einni þriggja stiga körfu og einu víti en það dugði til tveggja stiga sigurs 66 - 68.  

 

Fjölnir hefur þá unnið fyrstu tvo leikina og Þórsstúlkur eru komnar með hið fræga bak upp við hinn enn frægari vegg.  En það þarf bara að spýta í lófana og trúa því að það sé hægt að vinna þessa leiki sem báðir hafa verið óheyrilega jafnir.

 

Akureyringar vina að Fjölnir þurfi að koma aftur í Síðuskóla og þá verður barist fram á síðustu sekúndu eins og í dag.

 

Hjá Þór var Heiða Hlín stigahæst með 19 stig og gaf 5 stoðsendingar, Rut Herner 19 stig 10 fráköst og 5 stoðsendingar, Unnur Lára var með 13 stig, 15 fráköst og 4 stoðsendingar, Hrefna Ottósdóttir 11 stig og Magdalena 5 stig 4 fráköst og 4 stoðsendingar. 

 

Hjá Fjölni var Berglind Karen stigahæst með 13 stig, Erla Sif 12 stig og 6 fráköst, þá voru þær Guðrún Edda, Fanney og McCalle Feller 9 stig hver auk þess var McCalle með 13 fráköst og 7 stoðsendingar, Margrét Ósk 8 stig, Aníka Linda 4 stig og þær Birta Margrét og Svala 2 stig hvor.  

 

Tölfræði leiks 

 

Myndir úr leiknum Palli Jóh 

 

Umfjöllun: Sigurður Freyr

Myndir: Palli Jóh