Umfjöllun, myndir og viðtöl:

Brittanny frábær í sigri Keflavíkur

18.mar.2018  21:53 Oli@karfan.is

 

Skallagrímur tók á móti Keflavík í Fjósinu í kvöld. Jafnræði var með liðunum í allt kvöld en það var maður leiksins, Brittanny Dinkins, sem stoppaði sigurgöngu Skallagríms með frábærum leik. Keflavík sigraði í spennu leik, 82-86.

 

FJÓSIÐ

 

Molar fyrir leik:

 

  • Dómarar leiksins voru þeir Sigmundur Már, Davíð Tómas og Rögnvaldur Hreiðars.

 

  • Skallagrímur höfðu unnið 4 síðustu leiki sína á meðan að Keflavík höfðu unnið  tvo síðustu leiki.

 

  • Bæði lið í geggjaðri stöðu í deildinni. Keflavík að berjast við Val um 2.sæti deildarinnar, og þar með heimaleikjaréttinn,  á meðan Skallagrímur er að berjast við Stjörnuna um sitt sæti í úrslitakeppninni.

 

  • Gunnhildur Lind var komin úr fermingu hjá frænku sinni.

 

  • Baskin var í Barcelóna bolnum á ritaraborðinu.

 

  • Jobbi Rafns og Rósa Marínós voru mætt í stúkuna og Ámundi var mættur með trommurnar. 

 

Byrjunarlið Skallagríms: Carmen-Sigrún-Jóhanna-Jeanne-Bríet.

Byrjunalið Keflavíkur: Erna-Brittany-Salbjörg-Thelma Dís-Elsa.

 

 

Fyrri hálfleikur.

 

Skallagrímur tók völdin í byrjun. Létu finna vel fyrir cher og spiluðu fínan bolta. Komust í 15-7 snemma í leiknum en Brittanny nokkur Dinkins setti þá af stað hraðlestina frá Keflavík. Mættu þær með 0-10 kafla og náðu að nálgast Skallagrím. Liðin fóru svo að skiptast á körfum og forystu í öðrum leikhluta eða þangað til Skallagrímur komst í 24-25. Þá náðu heimstúlkur að herða vörnina, allsvaðalega, og með gleði og barátta spiluðu þær flottan sóknarleik. Skallagrímur leiddi í hálfleik, 40-33.

 

Hálfleiks punktar:

 

Brittanny Dinkins var komin með 17 stig og 7 fráköst fyrir Keflavík á meðan Carmen var með 17 stig og 11 fráköst fyrir Skallagrím.

 

 

Seinni hálfleikur.

 

Keflavík komu grimmar úr búningsklefanum og og náðu að setja snögg stig á töfluna. Skallagrímur náðu að koma cher inn í leikinn en náðu engan vegin að stöðva Brittanny hjá Keflavík. Hún fór algjörlega á kostum og það var alveg sama hverju hún henti upp, það datt niður körfuna. En með Carmen í góðum gír, náðu Skallagrímur að jafna fyrir lokaleikhlutan. 61-61 og allt í bárujárnum. Í lokaleikhlutanum fór í gang sýning á milli Carmen og Brittanny. Báðar settu þær STÓR skot og Brittanny var einnig að finna opin mann í skot. Hjá Skallagrím var ekki sömu sögu að segja. Þegar Carmen var tvídekkuð þá kom oft óðagot á sóknarleikinn og rangar ákvarðanir voru teknar. Skallagrímur náði að minnka muninn í 3 stig þegar um 1,10mín voru eftir af leiknum en Keflavík náði með skynsömum leik og sjóðandi heita Brittanny að klára leikinn, 82-86.

 

Molar að leik loknum.

 

Brittanny var eins og áður segir frábær. Endaði leikinn með 48 stig,  13 fráköst og 7 stoðsendingar. Thelma var einnig drjúp á lokakaflanum og ekki má gleyma Ernu og Írenu sem settu stór skot í lok leiksins. Keflavík er nú í harðri baráttu við Val um 2.sæti deildarinnar og þar með heimavallarétt í fyrstu umferð.

 

Hjá Skallagrím var Carmen mjög öflug. Endaði hún með 39 stig og 17 fráköst. Sigrún var einnig flott með 13 stig, 9 stoðsendingar og 6 fráköst. En það var ekki sama flæði sóknarlega og hefur verið í síðustu leikjum liðsins. Keflavík náði að loka á Carmen nokkru sinnum í leiknum og þá virtist sem hinir leikmenn liðsins voru hálf ráðþrota. 

 

Skallagrímur á gríðarlega mikilvægan leik á miðvikudaginn næstkomandi gegn Stjörnunni og eru allir sveitungar hvattir til að mæta og styðja við stelpurnar.

 

Dómara einkunn: Átta. 

 

UPP OG ÁFRAM!!!!

 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Ómar Örn)

 

Viðtöl eftir leik:

 

 

Umfjöllun og viðtöl: Hafþór Gunnarsson

Myndir: Ómar Örn Ragnarsson