Dominos deild kvenna:

Stjarnan skrefinu á undan gegn Snæfelli

17.mar.2018  23:20 davideldur@karfan.is

Stjarnan 69 - 65 Snæfell

 

Stjarnan tók á móti Snæfelli í Domino‘s deild kvenna í gær, laugardag. Fyrir leikinn var aðeins annað liðið í baráttu um sæti í úrslitakeppni deildarinnar, en Stjarnan berst hatrammlega við Skallagrím um fjórða og síðasta sætið í úrslitakeppninni. Eftir jafnan leik voru það heimakonur sem náðu að landa góðum sigri, 69-65, eftir að hafa leitt nánast allan leikinn. Baráttan um síðasta sætið í úrslitakeppninni er því áfram í algleymingi.

 

Lykillinn

Stjörnukonur komust yfir, 5-4, þegar um tvær mínútur voru liðnar af leiknum og eftir það komst Snæfell ekki aftur yfir í leiknum. Stjörnukonur, og raunar bæði lið, spiluðu frábæra vörn, sem sést best á lokatölum leiksins. Til að mynda voru aðeins skoruð 22 stig í þriðja fjórðungi, sem Garðbæingar unnu 13-9. Í hvert skipti sem gestirnir úr Stykkishólmi gerðu sig líklegar til að gera áhlaup, náðu heimakonur alltaf að slíta þær frá sér og halda forystunni, þó naum hafi verið.

 

Hetjan

Hetjur leiksins koma úr óvæntri átt að þessu sinni. Um miðjan fyrsta leikhluta bilaði önnur skotklukkan í Ásgarði. Starfsmenn leiksins voru hins vegar ekki lengi að finna til auka skotklukkur og setja upp milli fyrsta og annars leikhluta, og hélt leikurinn áfram hnökralaust eftir það.

 

Framhaldið

Stjörnukonur eru enn í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni, því liðið komst með sigrinum upp í fjórða sæti með 28 stig, tveimur stigum fyrir ofan Skallagrím sem á þó leik til góða. Stjörnukonur mæta einmitt Skallagrími í næsta leik sínum, í Borgarnesi miðvikudaginn 21. mars. Garðbæingar hreinlega verða að vinna þann leik, því Skallagrímur er með betri stöðu úr innbyrðisviðureignum liðanna í vetur. Snæfell hefur að fáu að keppa eftir leik dagsins, en liðið mætir næst Val á Hlíðarenda miðvikudaginn 21. mars.

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun / Elías Karl