Dominos deild kvenna:

Stjarnan rúllaði fram úr Njarðvík í fjórða leikhluta

10.mar.2018  20:15 davideldur@karfan.is

Stjarnan 77 - 64 Njarðvík

 

 

Stjörnukonur tóku á móti Njarðvík í Domino‘s deild kvenna í dag í Ásgarði. Fyrir leikinn var Stjarnan í fjórða sæti deildarinnar með 24 stig, en Njarðvíkingar voru án stiga á botni deildarinnar. Það var þó ekki að sjá fyrstu þrjá fjórðunga leiksins í dag að slíkur munur væri á liðunum, því Njarðvík spilaði fantavel fyrstu 30 mínútur leiksins og voru sjö stigum yfir, 44-51, fyrir lokafjórðunginn. Þá tók Danielle Rodriguez til sinna ráða og skaut gestina hreinlega í kaf í fjórða leikhluta, sem Garðbæingar unnu með 20 stiga mun, 33-13. Lokatölur leiksins því 77-64.

 

Lykillinn

Eftir að Njarðvík hafði verið yfir nánast allan leikinn náðu Stjörnukonur að brjóta gestina á bak aftur í lokafjórðungnum. Munaði þar eins og svo oft áður miklu um framlag Danielle Rodriguez, en Rodriguez skoraði 17 stig í lokafjórðungnum og stjórnaði leik Stjörnuliðsins eins og herforingi. Um miðjan fjórða leikhluta í stöðunni 55-55 tóku heimakonur 16-0 áhlaup, en á meðan gekk ekkert upp hjá gestunum. Skyndilega voru heimakonur því komnar 16 stigum yfir, 71-55. Stjörnukonur sigldu sigrinum ansi þægilega heim það sem eftir lifði leiks og unnu loks 13 stiga sigur, líkt og áður sagði.

 

Hetjan

Danielle Rodriguez var einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu en hún skoraði 46 stig, tók 12 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Þá var hún allt í öllu í leik Stjörnunnar í lokafjórðungnum, sem skóp sigurinn.

 

Framhaldið

Eftir sigurinn heldur Stjarnan sér í fjórða sæti deildarinnar, með 26 stig, fjórum stigum á undan Skallagrími sem á leik til góða. Næst spilar Stjarnan gegn Keflavík í Keflavík næstkomandi miðvikudag, en sama dag fer Njarðvík vestur í Stykkishólm og mætir Snæfelli.

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun, viðtöl / Elías Karl

 

Viðtal: