Dominos deild karla:

Stjörnuhrap í Síkinu

08.mar.2018  22:13 davideldur@karfan.is

Tindastóll 87 - 67 Stjarnan

 

Tindastóll vann sterkan sigur á Stjörnunni í lokaumferð Dominos deildar karla í körfuknattleik í Síkinu í kvöld.

Leikurinn var jafn framan af en Tindastóll þó ávallt skrefinu á undan og virtust alltaf hafa meiri trú á verkefninu en gestirnir.  Antonio Hester og Viðar Ágústsson með 3 þrista sáu um stigaskorið hjá Tindastól til að byrja með og heimamenn leiddu 19-16 eftir fyrsta leikhluta.  Tindastóll rauk svo af stað í öðrum leikhluta og komst 27-19 yfir eftir 1m 20 sek og þá var Hrafni nóg boðið og tók leikhlé.  Það virkaði ágætlega á hans menn sem tóku við sér og voru búnir að jafna 2 mínútum seinna.  Lítið gerðist svo til hálfleiks nema að Darrel D. Combs fékk dæmda á sig sóknarvillu þegar hann stökk inn í Viðar í lokaskotinu til að reyna að fiska villu.  Combs fór með olnbogann í andlit Viðars sem lá blóðugur á eftir og heimamenn á pöllunum vildu eitthvað meira en venjulega villu á Combs.
 


Seinni hálfleikurinn fór rólega af stað þar til Helgi Margeirs kom inná og smellti tveimur þristum í andlit gestanna og kom stöðunni úr 47-42 í 53-42 á einu andartaki.  Róbert klóraði í bakkann fyrir gestina en heimamenn hertu tökin og sigldu öruggum sigri heim.
 


Hannes og Pétur Rúnar fóru fyrir jöfnu liði heimamanna sem virðast hafa góð tök á þessu Stjörnuliði.  Hjá gestunum voru það einungis Tómas Þórður, sem átti frábæran leik, og Róbert sem voru að gera eitthvað af viti.  Heimamönnum gekk vel að ýta Hlyn Bæringssyni útúr leiknum og hann skoraði einungis 8 stig í kvöld.
 

 

Þáttaskil

 Heimamenn hertu einfaldlega tökin á leik sínum í seinni hálfleik og sigu framúr, Stjarnan átti engin svör.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Tindastóll tók 53 fráköst á móti 36 hjá gestunum og sendu 21 stoðsendingu á móti 14 enda miklu betra flæði í þeirra leik, 44% gegn 29% 

 

Hetjan 

Hannes og Pétur Rúnar áttu fínan leik og þá kom byssan Helgi Margeirs heit inn af bekknum. Tómas Þórður var öflugur fyrir gestina en það dugði ekki til.

 

Kjarninn 

Tindastóll er einfaldlega með töluvert sterkara lið en Stjarnan og það sýndi sig þegar leið á leikinn.

 

Mynd: Nesi Másson átti fínan leik í kvöld

 

Tölfræði leiks

Myndasafn 

 

Umfjöllun, myndir, viðtal / Hjalti Árna

 

Viðtal: