Umfjöllun og myndir:

Haukar deildarmeistarar í fyrsta sinn

08.mar.2018  21:56 Oli@karfan.is

 

Haukar gátu tryggt sér deildarmeistaratitilinn gegn Hlíðarendapiltum í lokaumferð deildarkeppninnar í kvöld. Með fullri virðingu fyrir Valsmönnum var erfitt að sjá fyrir sér að þeir myndi skemma partýið í Schenker-höllinni, ekki síst vegna þess að Valsliðið hafði að nákvæmlega engu að keppa. Jafnvel þó Kári Jóns væri fjarverandi í liði Hauka er hópur þeirra það góður að þeim ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði. En enginn veit ævi sína fyrr en öll er...

 

Spádómskúlan: 95-77, öruggur sigur Hauka. Spádómskúlan lítur ekki á þetta sem áskorun og nennir ekki að standa í einhverju myndhverfingarugli.

 

Þáttaskil

Heimamenn sýndu gestunum strax hvort liðið var að berjast fyrir deildarmeistaratitlinum. Um miðjan leikhlutann leiddu Haukar 14-3. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 21-11 og Haukur Óskars búinn að skora jafn mikið og allt Valsliðið.

 

Valsmenn voru lítið eitt beittari í öðrum leikhluta með Bracey og King fremsta í flokki. Þrátt fyrir það leit ekki út fyrir neina spennu og Haukar höfðu 14 stiga forskot í hálfleik, 41-27. Haukur Óskars var vel tengdur og var kominn með 15 stig í hálfleik.

 

Hjálmar kom gríðarlega flottur inn í þriðja leikhluta og skar svolítið á stigaþurrðina hjá sínum mönnum með snöggum 8 stigum. Haukar voru ekki að hitta vel og gestirnir sýndu það sem þeir hafa sýnt í allan vetur – þeir láta ekki ganga svo auðveldlega yfir sig. Valsmenn minnkuðu muninn ítrekað í 9 stig og það var jafnvel hægt að láta sig dreyma um að þetta yrði leikur. Þær vonir urðu að engu þar sem heimamenn tóku á nettan sprett undir lok þriðja og leiddu 65-49 að honum loknum.

 

Leikurinn hélt áfram í nokkuð svipuðum gír í lokaleikhlutanum. Valsmenn voru kannski ekki líklegir til að snúa leiknum sér í vil en það má sannarlega hrósa þeim fyrir að halda alltaf áfram og láta ekki spæna yfir sig ryki! Munurinn fór aldrei undir 10 stiga múrinn og leikar enduðu 83-70 Haukum í vil. Sigurinn var aldrei í hættu og má segja að vörnin hjá Haukum hafi haldið Valsmönnum fjarri allan leikinn. Vörn vinnur titla ekki satt?

 

Tölfræðin lýgur ekki

6 leikmenn Hauka skoruðu 10+ í leiknum, allt byrjunarliðið og Hjálmar setti 12 stig af bekknum. Hér væri kannnski viðeigandi að benda á að Kári Jóns var ekki með!

 

Bestu leikmenn

Paul Jones virðist vera að toppa á réttum tíma, hann skilaði 21 stigi, 10 fráköstum og góðri nýtingu. Haukur Óskars lét vel til sín taka, skoraði 19 stig og tók 5 fráköst. Hjá Val var Urald King bestur eins og oft áður, skoraði 24 stig og tók 17 fráköst.

 

Kjarninn

Kjarninn er augljóslega sá að Haukar eru deildarmeistarar þetta tímabilið! Til hamingju Haukar! Leikurinn út af fyrir sig fer kannski seint í sögubækurnar en Ívari og hans mönnum er alveg slétt sama um það! Þeir mæta sögufrægu liði Keflavíkur í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og það er lið sem deildarmeistararnir þora tæplega að vanmeta.

 

 

Valsmenn gerðu vel miðað við aðstæður. Þeir voru í raun samkvæmir sjálfum sér, gáfust aldrei upp og hótuðu því að gera þetta að leik ítrekað. Haldi þeir sama kjarna á næsta tímabili verður forvitnilegt að fylgjast með því hvernig þeim reiðir af.

 

Athygliverðir punktar:

  • Mætingin var algerlega óásættanleg í kvöld. Allar líkar voru á því að Haukar myndu lyfta bikar í lok leiks en húsið var langt frá því að vera hálffullt. Hafnfirðingar – hættið þessu fótbolta&handbolta-rugli og mætið á körfuboltaleiki! Fyrir hönd Hauka er sárt að jafn flott lið í þetta stóru bæjarfélagi fái ekki meiri stuðning. 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Bjarni Antonsson)

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson