Umfjöllun úr Valshöll:

Valur í góðri stöðu eftir sigur á Keflavík

07.mar.2018  21:03 Oli@karfan.is

Liðssigur Vals sem hirti innbyrðisviðureign liðanna

Stórleikur kvöldsins var í Valshöll þar sem þýðingarmikill leikur um heimaleikjarétt í úrslitakeppninni fór fram. Valsarar unnu mikilvægan sigur á Keflavík en liðið þurfti að vinna með meira en 10 stigum til að ná yfirhöndinni í innbyrðisviðureign liðanna og það tókst að lokum. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

 

Gangur leiksins:

 

Keflvíkingar virtust vera tilbúnari til leiks og komust snemma í 10-4. Bergþóra Holton var hinsvegar ekki á sama máli og samherjar sínir og reif Valsara af stað. Valur náði því yfirhöndinni í fyrsta leikhluta og leiddi 23-21 að honum loknum. 

 

Valskonur hófu annan leikhluta betur en bæði lið voru að gera mikið af klaufalegum mistökum í öðrum leikhluta. Dinkins kom sterk inn og Keflavík færðist nær um miðbik leikhlutans. Þegar leið á fyrri hálfleik skipti Keflavík í svæðispressuvörn og Brittany Dinkins fékk smá hvíld. Við það gekk Valur á lagið og náði góðri forystu fyrir hálfleikin 52-40. 

 

Það var svipað uppá teningnum í þriðja leikhluta. Góðu kaflar Keflavíkur voru stuttir og Valur náðu að svara því fljótt. Þegar liðin héldu inní lokafjórðunginn var staðan 67-54 fyrir Val sem þurfti að vinna leikinn með 11 stigum eða meira til að vinna innbyrðisviðureign liðanna. 

 

Hvorki gekk né rak hjá Keflavík í upphafi fjórða leikhluta. Valur jók forskot sitt en vörn liðsins var fanta fín á köflum. Keflavík átti engin svör í fjórða leikhluta og Valsarar gengu á lagið. Lokastaðan var 89-66 fyrir Val sem tryggði þar með sæti í úrslitakeppninni í ár. 

 

 

Hetjan: 

 

Klisjan um liðssigur átti við hjá Val í kvöld. Allir níu leikmennirnir sem léku lögðu eitthvað til og fimm leikmenn fóru yfir 10 stig. Þær Guðbjörg Sverrisdóttir og Bergþóra Holton verða hisnvegar teknar út sem sterkustu leikmenn kvöldsins. Guðbjórg endaði með 16 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar, auk þess sem hún hitti mjög vel og var ótrúlega skilvirk í leiknum. Bergþóra var með 12 stig og fimm stoðsendingar. En hún drefi liðið áfram og spilaði geggjaða vörn á Brittany Dinkins í leiknum. Aalyah Whiteside var stigahæst með 18 stig og bætti við 16 fráköstum og 6 stoðsendingum. 

 

Brittanny Dinkins endaði með flotta þrennu fyrir Keflavík í kvöld 13 stig, 15 fráköst og 10 stoðsendingar þrátt fyrir að vera í ströngu gæsluvarðhaldi hjá vörn Vals. 

 

Kjarninn: 

 

Sigurinn kemur Val í góða stöðu í annað sæti deildarinnar og fara langt með að tryggja þetta sæti. Keflavík þarf nú að vinna þremur fleiri leikjum en Valur á lokasprettinum þar sem liðið tryggði sér einnig sigur í innbyrðisviðureign liðanna. Darri Atlason þjálfari Vals hefur sagt frá fyrsta leik að aðal markmið Vals sé að ná í úrslitakeppni. Hann getur fagnað í kvöld því liðið hefur nú endanlegt tryggt það sæti. 

 

Keflavík var án Emblu í kvöld og það var einfaldlega eins og liðið hefði ekki trú á þetta verkefni. Það vantaði alla ákefð meirihluta leiksins hjá gestunum sem þurfa að finna hana fyrir úrslitakeppnina. Valsarar sýndu sínar betri hliðar eftir að hafa fengið verulegan skell gegn Breiðablik fyrir viku síðan. Vörn liðsins var heilt yfir ansi góð og þegar liðið náði flæði í sókninni var það ansi óárennilegt. 

 

Tölfræði leiksins