Valur-Njarðvík í Domino´s-deild karla

Toppsætið í húfi í Hafnarfirði

31.jan.2018  09:48 nonni@karfan.is

Runninn er upp gamli Óðinsdagur með fjölda leikja í kvöld og því glatt á hjalla víða í íþróttahúsum landsins. Þrír leikir á boðstólunum í Domino´s-deild kvenna og einn í Domino´s-deild karla. Herlegheitin hefjast með viðureign Vals og Njarðvíkur í Domino´s-deild karla kl. 18:00 í Valshöllinni að Hlíðarenda.


Í fyrri deildarleik Vals og Njarðvíkur var um spennuslag að ræða þar sem Njarðvíkingar kreistu fram sigur á lokasprettinum. Valsmenn eru í bullandi baráttu fyrir sæti í úrslitakeppninni um þessar mundir með 10 stig í 10. sæti (gamla ÍR-einkstæðið) en Njarðvíkingar í 5. sæti með 16 stig eins og Grindavík. Það er því von á miklum slag í Valshöllinni í kvöld og ljóst að Fun Eddie verður í fjöri á pöllunum.


Í Domino´s-deild kvenna hefjast allir þrír leikir kvöldsins kl. 19:15 en Haukar taka á móti Val, Skallagrímur fær Breiðablik í heimsókn og Stjarnan tekur á móti Keflavík. Í Hafnarfirði er toppsætið í húfi þar sem Valur getur með sigri náð fjögurra stiga forskoti á Hauka en takist Haukum að toga fram sigur jafna þær Val á toppi deildarinnar.


Skallagrímur og Breiðablik berjast um sæti í úrslitakeppninni með 16 og 14 stig í 5. og 6. sæti deildarinnar og styðja því væntanlega Keflavík til sigurs í kvöld gegn Stjörnunni sem um þessar mundir hefur 20 stig í 4. sæti deildarinnar og er inni í úrslitakeppninni. Ef blásið yrði til úrslitakeppninnar í dag yrði hún eftirfarandi:


Valur - Stjarnan
Haukar - Keflavík


En það er nóg af stigum eftir í pottinum í Domino´s-deild kvenna og því getur enn margt breyst áður en lokamynd kemur á deildarkeppnina.


Allir leikir dagsins

Mynd/ Bára Dröfn - Þóra Kristín og Haukakonur  taka á móti Val í toppslag Domino´s-deildar kvenna í kvöld.