Uppgjör:

Hvað stóð uppúr á árinu 2017?

31.des.2017  16:43 davideldur@karfan.is

Teitur: "Tryggvi stóð uppúr"

 

Karfan fékk 10 málsmetandi aðila til þess að ljóstra upp hvað hefði staðið uppúr á körfuboltaárinu sem er að líða.

 

 

 

Viðar Örn Hafsteinsson - Þjálfari:

Eurobasket í Helsinki er mér efst í huga þegar árið er gert upp í íslenskum körfubolta. Næst er árangur U20 landsliðsins í A-deild evrópumótsins.Síðan eru nokkrir aðrir hlutir sem eru stórir í mínum huga, Höttur vann sér sæti í efstu deild, fjórði íslandsmeistaratitill KR í röð og  frábært Keflavíkurlið í kvenna.

 

Hallveig Jónsdóttir - Leikmaður:

Mer finnst deildin i heild sinni mjög gæðamikil, mörg jöfn og sterk lið sem gerir hana einstaklega spennandi. Hvað varðar mitt lið Val, þá er umgjörð i kringum liðið og leikmenn til mikillar fyrirmyndar. Fyrir utan kvennaboltann þá fór ág til Finnlands i september að horfa a karlalandsliðið spila á EM. Það var einstaklega góð ferð og vonandi ekki langt þangað til að kvennalandsliðið fer á sitt fyrsta stormot.

 

Sævar Sævarsson - Fyrrum leikmaður:

Það sem stóð upp úr á körfuboltaárinu er líklega Íslands- og bikarmeistaratitlar Keflavíkurstúlkna. Þá var gaman að upplifa ævintýri Íslands í Finnlandi þó úrslitin hafi verið döpur. Að lokum var gaman að fylgjast með gengi Chicago Bulls undir lok árs...

 

Kristinn Pálsson - Leikmaður:

Það sem stóð uppúr á árinu er auðvitað árangurinn með U20 í sumar og hvernig Tryggvi Snær er búinn að eiga breakout ár!

 

Þórður Helgi Þórðarson - Útvarpsmaður:

Það var afskaplega lítið sem stóð upp úr hjá mínu fólki á þessu ári. Njarðsveinar komust ekki í úrslitakeppnina og landsliðið náði ekki í sigurinn á Euro sem ég gerði mér vonir um. Mér fannst Kef gellur geggjaðar, meðal aldur ferming og sjá þær rúlla þessu upp var magnað. Svo skal ég viðurkenna að það var vandræðalega spennandi frétt að Kristinn Pálsson ætli að spila með Njarðvík eftir áramót. Aðallega þar sem ég kannast aðeins við kauða en hef aldrei séð hann í grænu. Það hefur bara aldrei gerst. Engin pressa Kristinn en ég geri fastlega ráð fyrir því að þú rúllir upp þessari deild... djók

 

 

Hannes Sigubjörn Jónsson - Formaður:

Það er rosalega erfitt að taka eitthvað eitt út úr þessu stóra og mikla ári en árið 2017 var lang annasamasta ár í sögu KKÍ og því mjög mjög erfitt að taka bara eitt atriði út því það er svo margt sem mig langar að nefna.

 

Árangur U20 strákana okkar var magnaður sð komast í 8-liða úrslit á EM er magnað og að hafa átt Tryggva í úrvslsliði mótsins var svo til að toppa þennan árangur. Talandi um Tryggva þá hefur mjög áhugsvert og skemmtilegt að fylgjast með þeim mikla áhuga sem hann hefur fengið í alþjóðlega körfuboltaheiminum á þessu ári.

 

Svo er það stemmingin sem var á EuroBasket í Helsinki og að sjá rúmlegs 2000 Íslendinga samankomna í keppnishöllinni var alveg magnað.

 

 

Baldur Beck - Sérfræðingur:

Ég er kannski sá eini sem sér þetta svona, en mér fannst boltaárið 2017 aldrei ná að hrista úr sér timburmennina ógurlegu sem fylgdu Öskubuskuævintýrunum og flugeldasýningunum sögulegu sem við urðum vitni að í boltanum árið á undan. Ég meina, hvernig í ósköpunum áttu úrvalsdeildin enska og NBA deildin að fylgja eftir ári, þar sem Leicester City og Cleveland Cavaliers unnu bæði meistaratitla? Það sér það hvert mannsbarn, að það er ekki hægt og þó ég taki ekkert af verðugum meisturum ársins sem er að líða, er ekki laust við að sé dálítill Moyes-bragur á þessu öllu saman í ár.

 

Þessara eftirkasta á þó ekki eftir að gæta fram á næsta ár, sem á eftir að verða rosalegt á öllum vígstöðvum, ef ég leyfi mér að hoppa aðeins í hlutverk völvunnar. Sérsvið mitt, NBA deildin, hefur aldrei verið eins spennandi og um þessar mundir, bæði vegna þeirrar öru þróunar sem er að verða á allri spilamennsku í deildinni og svo vegna ungu kynslóðarinnar sem er að taka við keflinu. Leikmenn eins og Kobe, Dirk og Duncan eru að hverfa af sviðinu, leikmenn eins og LeBron, Curry, Durant, Westbrook og Harden fara þar hamförum á hátindi ferils síns sem stendur, en svo er framtíðin einhyrninga og undrabarna, leikmanna eins og Giannis Antetokounmpo sem eru gjörólíkir öllu sem við höfum nokkru sinni séð og hafa alla burði til að fara með leikinn inn á áður óþekktar slóðir. Þetta getur ekkert orðið meira spennandi. Það er bara þannig.

 

 

Teitur Örlygsson - Fyrrum leikmaður:

Tryggvi stóð uppúr. Að fylgjast með honum frá Svartárkoti til Valencia.

 

 

Bryndís Gunnlaugsdóttir - Leikmaður:

Það sem stendur upp úr á árinu er meðal annars frábær frammistaða ungra Keflavíkurstúlkna. Þær spiluðu sinn leik án þess að pæla í öðrum og stóðu uppi sem bikar- og íslandsmeistarar. Karlamegin var virkilega gaman að sjá Grindvíkinga koma öllum á óvart og láta KR virkilega hafa fyrir því að vinna sinn fjórða íslandsmeistaratitil í röð sem er auðvitað magnaður árangur.

 

Landsliðsárið var einnig frábært – EM í Helsinki stendur auðvita upp úr en það var líka geggjað að fylgjast með 20 ára karlaliðinu í A-deild síðasta sumar og svo verður maður að nefna Tryggva. Að fylgjast með honum vaxa sem leikmanni allt árið 2017 var virkilega skemmtilegt og það verður gaman að sjá hvað 2018 hefur í vændum fyrir hann.

 

 

Finnur Freyr Stefánsson - Þjálfari:

Listinn er ansi langur á árinu 2017 og maður lítur kannski helst á það sem manni stendur næst. Að komast í höllina þriðja árið og ná að vinna bikarinn aftur. Lygilegur oddaleikur gegn Grindavík í DHL höllinni þar sem titlillinn kom í hús fjórða árið í röð og loksins á heimavelli. Sextándi titillinn sem gerir KR að sigursælasta félaginu í efstu deild karla. Langt og strangt landsliðssumar með metfjölda leikja. Fá þar að stýra A-landsliðinu í fyrsta skipti á Smáþjóðaleikunum. Árangurinn með u20 í Grikklandi er mér ansi kær enda sögulegur og svo vonbrigðin með A-landsliðinu í Finnlandi á Eurobasket. Hollywood sagan hans Tryggva er svo eitthvað sem maður mun aldrei gleyma. En svo er það nú þannig að samvinnan og samveran með öllu þessa frábæra fólki sem maður hefur fengið að vera með í þessum verkefnum sem stendur hæst upp. Eftir standa upp frábærar minningar og skemmtilegar sögur sem maður kann hvað best að meta.