Dominos deild kvenna:

Valssigur í síðasta leik fyrir jól

16.des.2017  20:18 davideldur@karfan.is

Stjarnan 51 - 65 Valur

 

Stjarnan tók í dag á móti toppliði Vals í Domino’s deild kvenna. Fyrir leikinn voru gestirnir í toppsæti deildarinnar og Stjarnan í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Eftir hörkuleik voru það Valskonur sem hirtu sigurinn með frábærri varnarframmistöðu, lokatölur 51-65 fyrir Val.

 

Lykillinn

Þrátt fyrir lágt stigaskor þá var leikurinn langt frá því að vera bragðdaufur og lélegur. Liðin spiluðu bæði einfaldlega hörkuvörn, sem sést kannski best á því að Stjörnukonur hittu einungis úr 16 af 85 skotum sínum utan af velli, sem gerir 19% skotnýtingu. Skotnýting Vals var ekkert til að hrópa húrra fyrir, en þó tvöfalt betri en heimakvenna eða 38%.

 

Best

Þær Elín Sóley Hrafnkelsdóttir og Guðbjörg Sverrisdóttir áttu báðar flotta leiki fyrir gestina í kvöld, með 17 og 20 stig. Elín var áberandi besta skytta kvöldsins, en hún hitti úr 70% tveggja stiga skota sinna og 50% þriggja stiga skota sinna.

 

Framhaldið

Bæði lið fara nú í jólafrí, Valskonur á toppi deildarinnar en Stjarnan er í því fjórða. Næst leika Stjörnukonur við Hauka á nýju ári, 7. janúar en daginn áður mæta Valskonur Breiðabliki.

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson