1. deild kvenna:

ÍR-stelpur fengu góðan heimasigur í jólagjöf

16.des.2017  22:32 helgihrafnolafsson@gmail.com

ÍR 57-37 Hamar


Í dag mættust 1. deildarliðin ÍR og Hamar í Hertz-hellinum í seinasta leik liðanna fyrir jólafríið. ÍR áttu besta leik sinn á tímabilinu á meðan að Hamarsstúlkur virtust hafa gleymt baráttunni í Hveragerði. Leiknum lauk 57-37 eftir afgerandi seinni hálfleik hjá ÍR-ingum.
 

Leikurinn hófst með því að ÍR sendu boltann reglulega inn í teig þar sem Nína Jenný Kristjánsdóttir reyndist illviðráðanleg og kom framherjum Hamars fljótlega í villuvandræði, en Nína fiskaði 9 villur í leiknum. Hamarsstúlkur létu það þó ekki á sig fá og héldu í við heimastúlkur í fyrsta leikhluta, en hvorugt lið var að skora sérstaklega mikið (11-10 eftir fyrstu 10 mínúturnar) framan af. Í öðrum leikhluta hertu ÍR-ingar sig og gestirnir gátu varla byrjað sóknirnar sínar á hálfum velli, en þær töpuðu 8 boltum í leikhlutanum. Þetta leiddi til þess að ÍR skoraði 12 stig gegn tveimur stigum gestanna á 7 mínútum. Undir lok fyrri hálfleiks náðu Hvergerðingar þó aðeins að finna baráttuna í sér og tóku sitt eigið 9-2 áhlaup til að laga stöðuna allverulega fyrir hálfleik. Liðin héldu inn í búningsklefana í stöðunni 25-21, ÍR í vil.

Eitthvað virðast Hamarsstelpurnar hafa gleymt sér í hálfleiknum því að þær mættu varla í þriðja leikhluta; ÍR vöðuðu yfir þær og næstum ekkert skot vildi rata rétta leið, en þær hittu einungis úr tveimur skotum af 18 í leikhlutanum (11% skotnýting) sem skilaði fjórum stigum. Heimastúlkur gengu á lagið og skoruðu 15 stig á sama tíma og leikurinn réðst í raun áður en fjórði leikhluti hófst. Hamar bættu sig aðeins í lokafjórðungnum en gátu lítið gert fyrst ÍR var að eiga svona góðan leik. Lokastaðan var 57-37, ÍR-ingum í vil.
 

Þáttaskil

Þriðji leikhlutinn gerði alveg út af við vonir Hamars um að eiga séns í ÍR að þessu sinni, en þær komu flatar út úr hálfleikshléi á meðan að ÍR héldu áfram að rúlla.
 

Hetjan

Nína Jenný bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn vallarins að þessu sinni, bæði vegna hæðar sinnar og flottrar frammistöðu í leiknum. Hún skoraði 18 stig, tók 12 fráköst (þ.a. 5 sóknarfráköst), gaf þrjár stoðsendingar og varði þrjú skot. Framlag hennar í leiknum var til jafns við heildarframlag Hamarsliðsins, en hún og Hamar luku bæði leik með 28 framlagsstig.
 

Tölfræði leiksins

Þjálfara ÍR-inga, Ólafi Jónasi Sigurðssyni, fannst liðið sitt eiga sinn besta leik og það reyndist hárrétt hjá honum. Þær heimastúlkur náðu hæsta framlagsleiknum sínum í dag, en þær söfnuðu heilum 70 framlagsstigum í leiknum, sem er rúmum 25 framlagsstigum yfir meðaltali liðsins. Þetta tókst þeim þrátt fyrir slakan dag í skotnýtingu utan af velli, en þær skutu 23%. Það sem vann leikinn var líka hreinn fjöldi vítaskota sem að ÍR fengu og nýttu; 23 víti hitt af 37 reyndum, metfjöldi í báðum tölfræðiþáttum.
 

Kjarninn

ÍR fara með besta leik tímabilsins inn í jólafríið og ætla að sögn þjálfarans að halda áfram að bæta sig og sækja í sig veðrið í fríinu. Þær gætu farið að klífa sig upp í deildinni með þessu áframhaldi og með fleiri svona leikjum. Hamar fara hins vegar með sárt ennið inn í fríið og læra vonandi eitthvað af þessum leik til þess að taka inn í næstu leiki eftir áramót.
 

Tölfræði leiksins
 
Viðtöl eftir leikinn:

 

 

Umfjöllun, mynd með frétt og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson