Dominos deild kvenna:

Blikasigur í Stykkishólmi

16.des.2017  19:51 davideldur@karfan.is

 

Fyrri hálfleikur

Snæfell og Breiðablik mættust í Dominosdeild kvenna á laugardags eftirmiðdegi. Dagurinn var dimmur og þungur, svolítið eins og heimastúlkur í byrjun leiks. Þær mættu kraftmiklum Blikastúlkum sem voru tilbúnar að leggja mikið á sig fyrir þjálfarann sinn Hólmarann Hildi Sigurðardóttur. Það var greinilegt að sett var upp að taka hart á Kristen McCarth og virkaði hún þreytt og orkulaus. Hins vegar var Ivory Crawford virkilega öflug í vörninni og lét boltann ganga vel í sókninni þó svo að hún hafi endað flestar sóknirnar sjálf með góðum hætti.

 

Í öðrum leikhluta voru Blikastelpur með mikil læti, fögnuðu öllum körfum og litlum atriðum. Heimakonur voru hins vegar ekki alveg samstilltar og voru að gefa boltann frá sér full oft. Ellefu stiga munur var í hálfleik og virkuðu Blikar töluvert ákveðnari.

 

Helstu atriði fyrri hálfleiksins

  • Blikar sprækari og tilbúnari.
  • Snæfellingar nokkuð ólíkar sjálfum sér
  • 6 villur dæmdar
  • 4 á Snæfell og 2 á Blika
  • Skotnýting liðanna gjörólík – Blikar að hitta frábærlega á meðan Hólmarar áttu erfitt með að finna netmöskvana.

 

Seinni hálfleikur

Heimakonur byrja í pressu og setja fyrstu stigin, Blikar leysa pressuna ágætlega með sendingum. Þó svo að Hólmarar eru harðari og ákveðnari í byrjun. Rífa í sig hvert sóknarfrákastið á fætur öðru og sækja vel á Blika stelpur. Eftir þrjár mínútur er leikurinn kominn í fimm stig. Lítið sem ekkert var skorað í nokkrar mínútur en svo komu körfur á báða bóga. Ivory Crawford skoraði að vild og áttu Snæfellsstúlkur ekki roð í hana á stórum köflum í þriðja leikhluta. Hún fann sér pláss og rúllaði vel að körfunni eftir hentugleika. Munurinn á liðunum fór upp og niður en þegar flautan gall þá höfðu Blikar bætt sinn leik og náð muninum upp í 13 stig.

 

Óíþróttamannsleg villa og svo brot í þriggja stiga skoti gerði Snæfellingum erfitt fyrir og þurftu þær virkilega stíga á bensínið í þeim fjórða ef þær ætluðu að ná Blikum.

 

Ivory komin með meira en helming stiga gestanna aðrar töluvert minna. Hjá Snæfell dreifðist stigaskorið að mestu á Berglindi, Kristen og Rebekku.

 

Í fjórða leikhluta byrjuðu Snæfellingar betur og settu smá pressu á gestina. Stemmingin færðist yfir og fóru Hólmarar loksins að hittna. Blikar búnar að hitta frábærlega í leiknum. Svæðisvörn Hólmara fór loks að virka og stoppin komu. Lovísa Fals setti þá tvo mikilvæga þrista og róaði það leik Breiðabliks, Auður Íris setti tvo til viðbótar og ísaði leikinn.

 

Niðurlagið

Hólmarar hentu frá sér tækifærunum til að jafna leikinn og voru þær sjálfum sér verstar í leiknum. Blikar settu stóru skotin og uppskáru frábæran sigur og héldu heim á leið með stigin tvö í farteskinu. Eftir leikinn eru Snæfellsstelpur í 7. sætinu og eru þær tveimur stigum á eftir grönnunum í Skallagrím og Blikar eru í 4. til 5. sætinu með 16 stig.  

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun / Gunnlaugur Smárason