Áfall fyrir Þórsara:

Oliver ekki meira með í vetur - Samið við nýjan erlendan leikmann fyrir helgi?

15.des.2017  07:42 Oli@karfan.is

Marquese Oliver hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Þór Ak á tímabilinu. Hann varð fyrir alvarlegum meiðslum í tapinu gegn Njarðvík fyrir tveimur vikum og missti hann af síðustu tveimur leikjum ársins hjá Þór.

 

Heimasíða Þórs staðfestir að Oliver muni ekki vera meira með liðinu í vetur. Oliver var með 19,3 stig og 14,3 fráköst að meðaltali í leik en hann lék níu leiki fyrir liðið í Dominos deildinni fyrir meiðslin. 

 

Hjalti Þór staðfesti í viðtali við Karfan.is eftir tapið gegn Grindavík í gær að leit af nýjum erlendum leikmanni væri hafin. „Þessi vika var ekki skemmtileg. Veit ekki hvað ég hef horft á margar klippur, leiki og talað við hinn og þetta er ekki gaman.“ sagði Hjalti um leitina. 

 

„Ég er búinn að minnka valið niður í þrjá. Mig langar að klára þetta fyrir helgi.“ sagði Hjalti svo um hvernig leitin gengi. 

 

Þór Ak er í næst neðsta sæti Dominos deildarinnar með 4 stig eftir fyrri umferðina. Liðið er skipað ungum og efnilegum leikmönnum sem eru að fá eldskírn sína í efstu deild. Ljóst er að mikið er undir í leit af nýjum erlendum leikmanni en liðið ætlar sér að spyrna sér úr fallsæti á nýju ári.