1. deild karla

Naumur sigur Vestra á Fjölni

15.des.2017  23:22 barakristins@gmail.com

Fjölnir 90 - 91 Vestri


Vestri sigraði Fjölni með minnsta mögulega mun, 90-91, þegar liðin áttust við í Dalhúsum í kvöld í 1. deild karla. Eftir leiki kvöldsins situr Vestri í 3. sæti deildarinnar með 18 stig eftir 12 leiki en Fjölnir situr í 6. sæti með 10 stig eftir 13 leiki.


Ferðalagið til Reykjavíkur virtist ekki sitja í leikmönnum Vestra sem fóru vel af stað og skoruðu fyrstu 5 stig leiksins. Varnarleikur Fjölnis var ekki upp á marga fiska í upphafi leiks og náði Vestri 7 stiga forystu um miðjan fyrsta fjórðung í stöðunni 7-14. Fjölnismenn hertu þá á vörninni og komust yfir í fyrsta skiptið í leiknum þegar tæp mínúta var eftir af fyrsta fjórðungi með þriggja stiga körfu frá Samuel Prescott.

Fjölnir var skrefinu á undan allan annan leikhluta og stærstan hluta þriðja leikhluta en Vestri hleypti þeim aldrei langt frá sér. Síðustu 5 stigin í þriðja leikhluta komu frá Vestra og náðu þeir með því að jafna leikinn fyrir lokafjórðunginn.

Vestramenn mættu ákveðnir til leiks í fjórða leikhluta og leiddu með 8 stigum þegar tæpar þrjár mínútur voru til leiksloka. Næstu 6 stig komu frá Fjölni og leikurinn allt í einu orðin galopinn þar sem einungis 2 stig skildu að liðin og rétt rúm mínúta eftir af leiknum. Við tóku æsispennandi lokamínúta þar sem Ingimar Baldursson skoraði 2 stig fyrir Vestra þegar 15 sekúndur voru eftir á klukkunni og jók forskot þeirra í 4 stig.

Í lokasókn Fjölnis sendu Vestramenn Rafn Kristján á vítalínuna. Rafn setti fyrra vítið og geigaði á því síðara. Fjölnismenn náðu frákastinu og freistuðu þess að jafna leikinn en þriggja stiga skot Sigvalda Eggertssonar og Davíðs Alexanders rötuðu ekki rétta leið. Eftir skot Davíðs náði Fjölnir enn einu sóknarfrákastinu og upp úr því skoraði Rafn Kristján 2 stig og minnkaði með því muninn niður í 1 stig þegar 1 sekúnda var eftir af leiknum. Tíminn var hins vegar of naumur til að Fjölnir gæfist kostur á að stela sigrinum og Vestri hélt því heim á leið með tvö stig í fararteskinu eftir hörkuleik.

Nemanja Knezevic var stigahæstur í liði Vestra í kvöld með 26 stig og 16 fráköst og gerði hann Fjölni lífið leitt í teignum. Þá setti Nebosja Knezevic 25 stig fyrir Vestra og gaf 6 stoðsendingar og Hinrik Guðbjartsson var með 19 stig.

Hjá Fjölni var Sigvaldi Eggertsson 21 stig, Samuel Prescott var með 15 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar og Rafn Kristján Kristjánsson og Hlynur Logi Ingólfsson skoruðu 10 stig hvor. 

Tölfræði leiks

Myndasafn úr leik