1. deild karla:

Blikar betri í frákastabaráttunni gegn Hamri

15.des.2017  23:00 helgihrafnolafsson@gmail.com

Breiðablik 83-74 Hamar


Í kvöld mættust Breiðablik og Hamar í Smáranum í seinasta leik liðanna fyrir jólafrí. Fyrir leikinn voru Blikarnir á toppi deildarinnar jafnir að stigum með Skallagrími á meðan að Hamar voru jafnir að stigum með Snæfell og Vestra í 3.-5. sæti. Leikurinn fór 83-74, Breiðablik í vil.
 

Fyrstu mínúturnar einkenndust af mörgum litlum mistökum hjá báðum liðum; óráðleg skot, auðveld sniðskot sem geiguðu og illa hugsaðar sendingar. Skotnýting Blikanna var þó miklu betri í fyrstu og þeir komust fljótt í 10+ stiga forystu. Hvergerðingar voru þó ekki langt undan og með aðeins breyttri vörn náðu þeir að koma heimamönnum í vandræði. Vandinn var sóknin, Hamarsmenn voru ekki að hitta jafn vel og Breiðablik og þeir voru að hitta úr tveggja stiga skotum gegn þriggjum hjá Blikum. Munurinn í hálfleik bar vitni um stopula vörn beggja liða, en þau héldu inn í búningsklefana í stöðunni 47-38. 

Í seinni hálfleik náðu Hamar aðeins að taka sig á og laga stöðuna, en þeir komust næst Blikum í stöðunni 56-53 með góðri vörn og nokkrum vel völdum skotum. Þá tóku heimamenn sig til og settu seinustu 7 stig leikhlutans til að laga stöðuna fyrir lokaleikhlutann, 63-53. Aftur náðu Hamarsmenn að laga muninn í ca. 5 stig en Breiðablik hleypti þeim ekki nær en þetta og kláruðu leikinn með 9 stigum, 83-74.
 

Þáttaskil

Liðin voru nokkuð jöfn í leiknum og aldrei um nein sérstök þáttaskil að ræða enda var aldrei meira en 13 stiga munur á liðunum. Hamar voru þó alltaf að elta og kaflaskilin í leiknum voru þau fáu skipti þar sem Hamarsmenn komust óþægilega nálægt Breiðablik en þeir tóku sig þá alltaf til og breikkuðu bilið aftur.
 

Góðir í kvöld

Þeir sem stóðu upp úr í kvöld voru Jeremy Smith, Snorri Vignisson og Sveinbjörn Jóhannesson, en Hvergerðingar áttu í stökustu vandræðum með að hemja þá. Jeremy skoraði 33 stig, tók 12 fráköst og var með 40 framlagspunkta, Snorri skoraði 17 stig, tók 11 fráköst og var með 32 framlagspunkta. Sveinbjörn var illvígur inni í teig og sótti 8 sóknarfráköst og skoraði 6 stig.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Fyrir leik kvöldsins voru þetta tvö bestu lið deildarinnar í varnarfráköstum á meðan að Blikar voru að hitta betur úr skotunum sínum. Í kvöld hittu Blikar ágætlega en 21 sóknarfráköst tryggðu þeim fleiri sóknartækifæri og það var það sem skilaði þeim sigri, ásamt slæmri þriggja stiga nýtingu Hamars, 5 af 25 (20%).
 

Kjarninn

Þá hafa fara bæði liðin inn í jólafríið, Blikar jafnir að stigum með Skallagrími á toppnum og Hamar jafnir að stigum með Snæfell nokkrum sætum neðar. Breiðablik eru í bullandi séns að fara beint upp á meðan að Hamar verða að vanda vel til verka til að halda sér inni í úrslitakeppninni, en þeir eru sem stendur seinastir inn í úrslitakeppni 1. deildar. 
 

Tölfræði leiksins
Myndasafn: Bjarni Antonsson
Viðtöl eftir leikinn:

 

 

 

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bjarni Antonsson