Domino's deild karla:

Haukar jöfnuðu toppliðin að stigum með sigri á ÍR

07.des.2017  22:45 barakristins@gmail.com

Haukar 97 - 87 ÍR


Haukar fóru með sigur af hólmi þegar þeir tóku á móti ÍR í Schenkerhöllinni í kvöld í 10. umferð Domino's deildar karla. Eftir að hafa tapað þremur af fimm fyrstu leikjum sínum á tímabilinu eru Haukar nú á góðu skriði og hafa unnið síðustu 5 leiki sína. Deildin er gríðarlega jöfn og eftir leiki kvöldsins eru ÍR, Haukar, KR og Tindastóll jöfn á toppi hennar með 14 stig en Keflavík og Njarðvík fylgja fast á hæla þeirra með 12 stig. 


Gangur leiksins

Kári Jónsson var á eldi fyrir Hauka i fyrri hálfleik, þá sérstaklega í fyrsta leikhluta og var með 5 af 8 í þristum í hálfleik og 3 af 4 í tveggja stiga skotum. Haukar virtust leika við hvern sinn fingur og skora að vild enda komnir með 58 stig í hálfleik á móti 40 stigum gestanna.

Eins ákveðnir og Haukar mættu til leiks í fyrri hálfleik, þá mættu ÍR ingar brjálaðir í seinni hálfleik. Þeir þéttu vörnina og Haukar skoruðu ekki nema 3 stig á fyrstu fjórum mínútum seinni hálfleiks. Á meðan röðuðu Breiðhyltingar niður stigunum, söxuðu jafnt og þétt á forskot Hauka og munurinn kominn niður í 3 stig, 61-58, þegar Haukar tóku leikhlé. Barátta ÍR skilaði sér upp í stúku þar sem Ghetto Hooligans hófu að dansa á pöllunum. Danero Thomas setti niður fyrstu körfuna eftir leikhléið og jafnaði metinn fyrir ÍR, 61–61.

Paul Jones braut þá ísinn fyrir Hauka og skoraði næstu 6 stigin í leiknum áður en ÍR tók leikhlé í stöðunni 67-61. Breiðhyltingar stilltu aftur saman strengi sína og minnkuðu muninn niður í 1 stig, 69-68, en Emil Barja átti lokaskot leikhlutans og jók forystu Hauka í 4 stig.

Haukar nýttu sér þennan meðbyr, Kári Jónsson datt aftur í gang eftir að hafa verið stigalaus í þriðja leikhluta og Haukar náðu fljótlega 10 stiga forystu. Þeirri forystu héldu þeir nánast það sem eftirlifði leiks og sigldu heim 10 stiga sigri, 97-87. 

Tölfræðin lýgur ekki
Haukar skutu mjög vel í kvöld og voru með 69% nýtingu í tveggja stiga skotum og 40% nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna auk þess sem þeir unnu frákastabaráttuna og tóku 44 fráköst á móti 32 fráköstum ÍR. 

Hetjan
Kári Jónsson var eins og fyrr sagði á eldi í upphafi leiks og nýtti skot sín gríðarlega vel. Hann hafði hægara um sig eftir því sem leið á leikinn en lauk leik stigahæstur Hauka með 29 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. 

Þá skoraði Paul Anthony Jones 23 stig og tók 7 fráköst fyrir Hauka en hann nýtti 10 af 12 tveggja stiga skotum sínum í kvöld. Framlag hans var sérstaklega mikilvægt í þriðja leikhluta þegar meðbyrinn var með ÍR og skoraði hann 6 stig í röð eftir að ÍR jafnaði í stöðunni 61-61. 

Tölfræði leiks

Myndasafn úr leik