Umfjöllun frá Keflavík:

Flottur Stjörnusigur í Keflavík

07.des.2017  23:05 Oli@karfan.is

Stanley Robinson á leiðinni heim?

 

Keflvíkingar tóku á móti Stjörnunni í 10. umferð Domino´s deildar karla í kvöld. Fyrir leikinn munaði 4 stigum á liðunum, Keflvíkingar með 12 stig í 3. -5. sæti á meðan Garðbæingar voru með 8 stig í 7.-9. sæti á þessu afar jafna og spennandi Íslandsmóti. 

 

Fyrsti leikhlutinn hófst í jafnvægi, liðin skiptust á körfum en það voru gestirnir með þá Tómas Þórð og og Hlyn Bæringsson fremsta í flokki sem tóku keflið og leiddu með 12 stigum, 14 - 26, að loknum 10 mínútum.

 

Keflvíkingar komu mun ákveðnari til leiks í 2. leikhluta, ekki síst fyrir tilstilli Þrastar Leó Jóhannssonar, sem leysti stigalausan Stanley Robinson af hólmi, og Ágústar Orrassonar en báðir komu inn með aukin skriðþunga fyrir heimamenn. Keflvíkingar byrjuðu leikhlutann 7-0 áður en Stjörnumenn rönkuðu við sér aftur. Gestirnir úr Garðabænum enduðu leikhlutann vel og náðu muninum upp í 11 stig fyrir hálfleik, 39-50. 

 

Tómas Þórður og Hlynur Bæringsson voru allt í öllu fyrir gestina með sitthvor 13 stigin auk þess sem Hlynur reif niður 8 fráköst í hálfleiknum.

 

Hjá heimamönnum voru þeir Þröstur Leó og Ágúst Orrason með 8 stig hvor.

 

Þriðji leikhlutinn var í raun eign Stjörnumanna þótt að munurinn hafi aðeins aukist um 2 stig. Sókn Keflvíkinga var tilviljunarkennd og mikið um knattrak frá öllum aðilum sem boltann fengu að höndla án þess að það skilaði miklu. Stjörnumenn voru að spila óeigingjarnan sóknarleik og Tómas Þórður hélt áfram að salla niður skotunum sínum. Staðan 55-68 er Colin Pryor setti niður langan tvist er leikklukkan gall. 

 

Stjörnumenn reyndust svo nægilega seigir í síðasta leikhlutanum, fengu mikið af aukatækifærum eftir sóknarfráköst á besta tíma og fullnýttu þau til að núllstilla allar tilraunir heimamanna til að klóra sig inn í leikinn þar sem Róbert Sigurðsson var áberandi í gerendahlutverki. Seigla gestanna reyndist heimamönnum of mikið að eiga við og lönduðu Stjörnumenn sætum og kærkomnum útisigri. 81-92 voru lokatölur.  

 

Tómas Þórður Hilmarsson var stigahæstur í liði gestanna með 22 stig og nýtti sín skot mjög vel. Róbert Sigurðsson steig upp í síðari hálfleik og lauk leik með 21 stig Hlynur Bæringsson átti einnig prýðisleik með 18 stig og 14 fráköst.

 

Hjá heimamönnum var Reggie Dupree stigahæstur með 16 stig og 4 stoðsendingar og Ragnar Bragason skoraði 13 stig og tók 6 fráköst. 

 

Þáttaskil

Eftir að hafa átt í fullu tréi við gestina fyrstu 3-4 mínútur leiksins tók að halla undan fæti hjá Keflvíkingum um miðbik leikhlutans. Sóknarflæðið var stirrt og opin skot ekki að detta. Á sama tíma voru stóru mennirnir í teignum hjá Stjörnunni að valda miklum usla í sóknarleik gestanna og réðu þeir Stanley Robinson og Magnús Traustason lítið við þá Hlyn og Tómas Þórð sem voru í góðum gír í kvöld. 12 stiga munurinn sem var á liðunum eftir leikhutann náðu gestirnir að halda í og standa af sér allar tilraunir heimamanna við að rétta muninn af. Keflvíkingar létu dómaratríó kvöldsins fara í taugarnar á sér í síðari hálfleik á viðkvæmum tímum þar sem orkunni hefði e.t.v. verið betur varið í grimmari varnarleik og agaðri sóknarleik.

 

Tölfræðimolinn

Keflvíkingar skjóta heilum þremur vítaskotum í kvöld. Það er sönnunargagn sem erfitt er að hunsa varðandi þeirra sóknarleik í kvöld. Nærvera í teignum var engin og áræðnin að sækja á körfuna sjaldséð. Keflvíkingar litu vægast sagt illa út sóknarlega. 

 

Nýting Garðbæinga fyrir utan þriggja stiga línuna gleður þó augað. 11 úr 22 skotum gerir slétt 50% nýtingu sem er vel gert. Flest komu skotin úr galopnum færum eftir flottar fléttur og óeigingjarna spilamennsku.

 

Is Stan the man?  -computer says no.

 

Útfrá síðasta punkti beinum við sjónum okkar að nafntoguðum Stanley Earl Robinson, erlendum leikmanni Keflavíkur. Hann spilaði í tæpa 21 mínútu í kvöld og skilaði 10 stigum og 8 fráköstum. Keflavíkurliðið var -16 þær mínútur sem hann fékk að slíta parketinu og hefði Friðrik Ingi ekki verið búinn að lofa að gera góðverk á aðventunni þá hefði mínútufjöldinn hans sennilega verið helmingi minni m.v. spilamennskuna. Frá því að boltanum var kastað upp í byrjun leiks þar til lokaflautið gall var líkamstjáning og vinnuframlag langt undir þeim væntingum sem ferilskráin ber með sér um Stanley Robinson. Keflavíkurliðið er hlaðið skyttum og leikmönnum sem líður vel fyrir utan teiginn og til að slíkt lið geti fullnýtt sína styrkleika þarf sterka nærveru í teiginn til að opna fyrir gott flæði og jafnvægi í sóknarleiknum. Stanley Robinson er ekki rétti maðurinn í verkefnið, svo einfalt er það. Líklegt þykir að Stan eyði meira en bara jólum og áramótum í heimalandi sínu á komandi vikum, svo ef fólk hafði hugsað sér að eiga við hann spjall um tíma hans í  NBA deildinni á Þorrablóti Keflavíkur í janúar er mögulega best að haga sínum málum eftir líkum og taka upp tólið á meðan rukkað er fyrir símtöl innanlands í kappann.

 

Hvað þýða úrslitin? 

Stjörnumenn vinna 2 stig á Keflvíkinga og minnka bilið á liðin í efri parti deildarinnar. Mikilvægt fyrir Garðbæinga að vinna útisigur og spila tvo góða hálfleika. Pakkinn þéttist því enn meira þar sem Njarðvík skellti Tindastóli fyrir norðan. Keflavík tapar öðrum heimaleik sínum í röð og situr áfram um miðja deild.

 

Tölfræði leiksins.

 

Myndasafn (Skúli B. Sigurðsson)

 

 

Umfjöllun / Sigurður Friðrik Gunnarsson