Dominos deild kvenna:

Öruggt hjá Stjörnunni gegn Snæfelli

06.des.2017  22:28 davideldur@karfan.is

Stjarnan 75 - 53 Snæfell

 

Stjarnan tók í kvöld á móti Snæfelli í Domino’s deild kvenna. Fyrir leikinn voru Garðbæingar með 12 stig í fjórða sæti deildarinnar, á meðan gestirnir úr Stykkishólmi voru með 10 stig í því næstneðsta. Þó að einungis hafi verið tvö stig á milli liðanna fyrir leikinn var leikurinn aldrei spennandi. Eftir frekar ójafnan leik vann Stjarnan öruggan sigur, 75-53, og skaust því tímabundið upp í þriðja sæti deildarinnar.

 

Lykillinn

Ljóst var eftir fyrsta leikhluta að róðurinn yrði þungur fyrir Snæfell. Gestirnir mættu einungis með átta leikmenn til leiks og lentu lykilmenn á borð við Berglindi Gunnarsdóttur fljótlega í villuvandræðum. Svo virtist vera sem manneklan og villuvandræðin drægju nokkuð úr Snæfelli, en svo virtist sem gestirnir væru að spara sig í allri baráttu um lausa bolta. Stjörnukonur gengu á lagið og rúlluðu vel á sínum fullmannaða hóp og höfðu 21 stigs forystu í hálfleik. Í fjórða leikhluta varð munurinn mestur 31 stig og var sigur heimakvenna aldrei í hættu.

 

Best

Það virðist vera sama sagan í liði Stjörnunnar leik eftir leik, en Danielle Rodriguez var í enn eitt skiptið besti leikmaður vallarins. Rodriguez var einni stoðsendingu frá þrennu en hún skoraði 28 stig, tók 11 fráköst og gaf níu stoðsendingar.

 

Framhaldið

Stjarnan spilar næst gegn Skallagrími í Borgarnesi næsta miðvikudag en Snæfell spilar á sama tíma á Hlíðarenda gegn Val.

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson