Dominos deild kvenna:

Tvöfaldur sigur í Stykkishólmi

03.des.2017  20:04 davideldur@karfan.is

 

Bæði kvenna og karlalið Snæfells sigruðu sína leiki í Stykkishólmi í dag. Kvennaliðið bar sigurorð af Njarðvík í Dominos deild kvenna, 76-62, en karlaliðið sigraði Fjölnir í 1. deild karla, 100-85.

 

Í fyrri leiknum var það ljóst frá fyrstu mínútu að Snæfell ætlaði sér ekkert annað en sigur í dag. Leiddu með 13 stigum eftir fyrsta leikhluta, 22-9. Þegar í hálfleik var komið höfðu Njarðvíkurstúlkur aðeins tekið við sér, en munurinn ennþá 12 stig, 42-30. Í upphafi seinni hálfleiksins jók Snæfell aftur við forystu sína, en fyrir lokaleikhlutann voru þær 18 stigum yfir, 59-41. Eftirleikurinn auðveldur og að lokum fóru þær með 14 stiga sigur af hólmi, 76-62.

 

Atkvæðamest í liði Snæfells var Kristen McCarthy með fáséða fernu, 31 stig, 15 fráköst, 10 stoðsendingar og 12 stolna bolta. Fyrir Njarðvík var Shalonda Winton atkvæðamest með 36 stig og 20 fráköst.

 

 

 

 

 

Dominos deild kvenna:

Snæfell 76 - 62 Njarðvík

Myndasafn

 

1. deild karla:

Snæfell 100 - 85 Fjölnir

Myndasafn