Umfjöllun, myndir og viðtöl:

Valskonur enn á toppnum eftir sigur á Haukum

02.des.2017  19:50 Oli@karfan.is

Haukar unnið einn leik af síðustu sex

Valur trónir enn á toppi Dominos deildar kvenna eftir góðan sigur á Haukum í elleftu umferð deildarinnar í dag. Eftir að Haukar höfðu haft forystuna meirihluta fyrri hálfleiks kom Valur sterkt til leiks í seinni hálfleik og náði í góðan sigur að lokum. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

Gangur leiksins: 

 

Leikurinn var mjög jafn í byrjun leiks og tókst hvorugu liðinu að ná forystu eða koma sér framúr í fyrsta leikhluta. Valskonur byrjuðu annan leikhluta vel en vörn þeirra slakaði nokkuð á um miðbik leikhlutans. Við það gengu Haukar á lagið og komu sér í fína forystu rétt fyrir hálfleikinn. Staðan í hálfleik 50-44 Haukum í vil.

 

Valur byrjaði seinni hálfleikinn á að jafna leikinn strax og gáfu þar tóninn fyrir það sem eftir var af leiknum. Liðið var mun betra í þriðja leikhlutanum. Vörnin hertist hjá Val og sóknarleikur Hauka fann ekki leiðir að körfunni. Við þetta brotnaði lið Hauka nánast saman og lítið gekk í seinni hálfleik. Í fjórða leikhluta gekk Valur á lagið og kom sér í yfir 10 stiga forystu. Liðið silgdi svo góðum sigri heim að lokum 78-68. 

 

Hetjan: 

 

Enn og aftur er það liðsheildin og breiddin sem skapar sigur Vals. Alexandra var stigahæst í liðinu með 22 stig og 9 stoðsendingar. Hún gerir mjög mikið fyrir liðið bæði lítið og stórt, hún gerir alla leikmenn í kringum sig enn betri og reyndist hetja dagsins. Dagbjört Dögg leikstjórnandi liðsins meiddist snemma í seinni hálfleik en þá stigu aðrir leikmenn upp. Vert er að nefna að hin unga Ásta Júlía kom mjög sterk af bekknum í dag, gaf reynslu meiri leikmönnum ekkert eftir og endaði með 6 stig og 4 stoðsendingar. 

 

Kjarninn: 

 

Eftir þennan sigur eru Valskonur búnar að slíta sig fjórum stigum frá Haukum með þessum sigri. Liðið er búið að vinna tvo leiki í röð eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum eftir landsleikjahlé. Liðið er enn eitt á toppi Dominos deildarinnar og lítur gríðarlega vel út. Vörnin sem liðið spilar er gríðarlega góð þegar hún smellur en enn vantar nokkuð uppá stöðugleikan á þeim enda vallarins. Leikmenn leggja allt í sölurnar og greinilegt að þeir hugsa meira um hag liðsins heldur en sinn eigin. 

 

Haukar hafa eftir þennan leik einungis unnið einn leik frá því 1. nóvember. Einn sigur í sex leikjum í deild og bikar hljóta að vera vonbrigða uppskera. Liðið virðist vera ofboðslega brotthætt og óstöðugt. Eins og Ingvar þjálfari sagði í viðtali við Karfan.is eftir leik þá sýndi liðið í þessum eina leik allan skalann í frammistöðu sinni. Sóknarleikur liðsins í dag var heilt yfir ansi slakur, lítil hreyfing og skotin oft þvinguð. Það búa meiri hæfileikar í liðinu en það hefur sýnt síðustu vikur og þarf það nú að ná upp andlegu hliðinni fyrir komandi verkefni. 

 

Tölfræði leiksins.

 

Myndasafn (Ólafur Þór Jónsson)

 

 

Viðtöl eftir leik