Meistararnir sýndu mátt sinn gegn Stjörnunni

02.des.2017  18:12 Skúli Sig (skuli@karfan.is)

18 stoðsendingar frá Brittany

 

Meistaralið Keflavíkur eru komnar á skrið og hafa nú sigrað 5 leiki í röð eftir ansi erfiða byrjun á mótinu.  Pressan fyrir mót gríðarleg þar sem að liðið sigraði jú alla titla í boði á síðasta ári.  Í dag tóku þær á móti liði Stjörnunar og framan af leik var nokkuð jafnt á með liðum en í seint í þriðja leikhluta sýndi liðið mátt sinn og tóku afgerandi forystu í leiknum sem að Stjörnustúlkur náðu aldrei að brúa.  97:76 varð lokastaða leiksins og verðskuldaður sigur meistarana að þessu sinni. 

 

Tölfræðin lýgur ekki: 
Það er ýmislegt fróðlegt við tölfræði kvöldsins en það helsta er væntanlega að Brittany Dinkins leikmaður Keflavíkur sendi 18 stoðsendingar á félaga sína eða tveimur meira en allt Stjörnuliðið til samans. Hún var hinsvegar einni stoðsendingu frá þrennuni góðu. Fróðlegt verður að sjá hvort þetta sé ekki hreinlega met. Keflavík hitti úr nærri 70% skota sinna innan teigs og það er erfitt að eiga við slíka hittni. 

 

Maður leiksins: 
Brittney Dinkins var án nokkurs vafa besti maður vallarins í kvöld. Hún skoraði 24 stig sendi 18 stoðsendingar og tók 9 fráköst.  Leikur Brittney hefur verið að vaxa í síðustu leikjum og var hún illviðráðanlega þetta kvöldið.  Hinsvegar verður ekki tekið af restinni af Keflavíkurliðinu að sama hver kom inná þá voru þær allar tilbúnar til að leika körfuknattleik í dag.

 

Framhaldið:
Sem fyrr segir er Keflavíkurliðið að finna fjöl sína eftir dapra byrjun á mótinu.  Þær hafa nú sigrað 5 leiki í röð og narta í hælana á toppliði Vals.  Sverrir Þór Sverrisson þjálfari liðisins sagðist eftir leik vissulega finna fyrir betra jafnvægi í liðinu en í upphafi móts og að mögulega hafi pressan sem byggðist uppá liðið truflað.  Stjörnustúlkur áttu svo sem ekkert alslæman leik. Þær voru inní leiknum allt fram á seinni hluta þriðja fjórðungs þegar Keflavík hreinlega hættu að klikka á skotum sínum.   Stjarnan er með sterkan hóp og framhaldið hjá þeim verður líkt og hjá flestum liðum deildarinnar, að slást um sæti í úrslitakeppninni í vor.  

 

Stigahæstir leikmenn:  Brittney 24 stig, Thelma Dís 19, Emelía Ósk 12   I   Danielle 28 , Ragna Margrét 17, Sylvía 13 

 

Næstu leikir:  Keflavík- Valur   I  Stjarnan - Breiðablik