Franska deildin:

Haukur vs. Martin í dag - „Meira undir en bara sigur fyrir liðið“

02.des.2017  02:00 Oli@karfan.is

Það er ekki á hverjum degi sem íslenskir leikmenn mæta hver öðrum í einni af sterkustu deildum evrópu. Það gerist í dag þegar Haukur Helgi Pálsson og hans lið Cholet tekur á móti Martin Hermannssyni og félögum í Chalons-Reims. 

 

Leikurinn er í elleftu umferð frönsku úrvalsdeildarinnar en báðir leikmenn eru í stórum hlutverkum í sínum liðum. Liðin eru jöfn að stigum í 14. og 15 sæti deildarinnar og þurfa á sigri að halda til að komast á skrið í deildinni. 

 

Karfan.is tók púlsinn á þeim félögum fyrir leikinn en nokkur fjarlægð er á milli þeirra í Frakklandi. Þeir léku síðasta mánudagskvöld á Íslandi gegn Búlgaríu og þremur dögum þar á undan í Tékklandi. Það eru því mikil ferðalög þessa dagana hjá þeim.

 

Martin Hermannsson sagði leikinn leggjast vel í sig þrátt fyrir langt ferðalag til Cholet í Vestur-Frakklandi. „. Þetta er mikilvægur leikur fyrir bæði lið þar sem að liðin eru jöfn í deildinni. Það er alltaf gaman að mæta vinum sínum og extra núna eftir að vera nýbúnir að vera að spila saman.“ sagði Martin. 

 

Þeir Martin og Haukur mættust auðvitað einnig á síðasta tímabii í frönsku B-deildinni. „Staðan er 1-1 í leikjum hjá okkur þannig að það er ennþá meira í húfi en bara sigur fyrir liðið.“ sagði Martin að lokum. 

 

Haukur Helgi Pálsson var einnig á því að leikurinn væri gríðarlega mikilvægur þar sem liðin væru jöfn að stigum og það væri sterkt að taka þennan leik. Um viðureignina gegn Martin sagði hann: „Alltaf sérstakt að mæta félaga sínum í öðru liði en það gefur manni auka kraft að vilja vinna. Þvi miður erum við náttúrulega i allt öðrum stöðum þannig við munum nú ekkert kljást sjálfir.“ 

 

Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum körfuboltaáhugamanni að Haukur Helgi lék landsleikinn gegn Búlgaríu síðasta mánudagkvöld kvalinn og hafði verið að eiga við meiðsli. Hann sagðist vera klár í slaginn gegn Martin. 

 

„Ég verð með, mun prófa æfingu í dag (gær) er bara búinn að vera hjá sjúkraþjálfara 2-3 svar á dag síðan ég kom. Ég er meira bara stífur heldur en með verki núna í öxlinni og ökklinn er ágætur. Þannig eg verð með og tilbúinn i þetta.“ sagði Haukur Helgi að lokum. 

 

Í dag mun koma í ljós hvort mun hljóta montréttinn þangað til liðin mætast aftur á nýju ári. Leikurinn hefst kl 19:00 að Íslenskum tíma og mun Karfan.is fjalla um leikinn í dag. Veðbankar eru á því að Cholet og Haukur Helgi muni fara með sigur á hólmi.