Áfall fyrir Skallagrím:

Sigrún spilar ekki meira á árinu að minnsta kosti

01.des.2017  07:00 Oli@karfan.is

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir lykillmaður Skallagríms meiddist illa í leik Skallagríms og Vals síðasta miðvikudag. Leikurinn var stöðvaður í hálftíma meðan gert var að meiðslum hennar og sjúkrabíll kom á staðinn. 

 

Samkvæmt Skessuhorni fór Sigrún Sjöfn úr axlarlið og verður því frá að minnsta kosti fram á nýtt ár. Sigrún þurfti að komast undir læknishendur og var nuddað aftur í lið á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. 

 

Í samtali við Skessuhorn sagði móðir Sigrúnar, Ragnheiður Guðmundsdóttir að Sigrún væri kvalin í öxlinni. Hún yrði frá til að minnsta kosti áramóti en endurkoman yrði ákveðin í samráði við lækna. „En hún er með ólíkindum hörkutól og ég hugsa að það verði frekar að halda aftur af henni en hitt,“ ​ sagði Sigrún svo við Skessuhorn. 

 

Skallagrímur leikur fimm leiki í desember mánuði og verða því án Sigrúnar í allavega þeim leikjum. Sigrún missir meðal annars af bikarleiknum gegn ÍR í átta liða úrslitum. Liðið mátti illa við meiðslum Sigrúnar. Ekki bara er hún gríðarlega mikilvægur hlekkur í sterku liði Borgnesinga. Heldur einnig er leikmannahópur liðsins þunnskipaður og má hann ekki við neinum skakkaföllum.