Tvíhöfði í Njarðvík:

Keflavík og Tindastóll með örugga sigra í Ljónagryfjunni

22.sep.2017  22:28 davideldur@karfan.is

 

Boðið var uppá tvíhöfða í Ljónagryfjunni í kvöld fyrir þá sem vildu taka forskot á sæluna áður en formlegt Íslandsmót hefst. í kvöld mættust kvennalið Njarðvíkur og Keflavíkur, annars vegar, og hins vegar karlalið Njarðvíkur og Tindastóls. Það var nokkuð vel mætt á völlinn m.v. að um æfingaleiki væri að ræða og ljóst að körfuboltaunnendur eru farnir að telja niður í að Domino´s deildirnar hefjist.

 

 

Fyrri leikur kvöldsins var nágrannaslagur í kvennaflokki. Hlutskipti þessara liða á síðustu leiktíð gjörólík, Keflavík vann tvöfalt á meðan Njarðvíkingar enduðu í neðri hluta deildarinnar.

 

Eftir brösóttar upphafsmínútur hjá báðum liðum,  þar sem nánast ekkert var skorað og mikið var um mistök á báða bóga, voru það Keflvíkingar sem tóku frumkvæðið og sýndu að þær eru komnar töluvert lengra áleiðis í sínum undirbúningi en heimakonur. Þær breyttu stöðunni úr 5-2 eftir 5 mínútna leik í 8-16 fyrir lok 1. leikhluta og litu í raun aldrei til baka. Liðsheild Keflvíkinga bauð uppá samhent átak báðum megin á vellinum og virðist nýr erlendur leikmaður, Brittanny Dinkins , falla vel að leikstíl liðsins sem einkennist af óeigingirni og grimmum varnarleik eins og boðið hefur verið uppá síðustu misserin í Keflavík. Boltinn fékk að fljóta vel í sókninni og þá áttu Njarðvíkingar í tómu basli með að búa sér til færi hinum megin á vellinum og á köflum reyndist það þrautin þyngri að koma upp skoti gegn firnasterkri vörn Íslands- og bikarmeistaranna. Margir tapaðir boltar buðu uppá  auðveldar körfur fyrir gestina sem hefðu getað leitt með mun stærri mun ef ekki hefði verið fyrir klaufalegar sendingar og mörg misnotuð sniðskot. Hálfleikstölur 13- 36 fyrir Keflavík.

 

Stigahæst í liði Njarðvíkur í hálfleik var Erika Williams með 6 stig en hjá Keflvíkingum voru Brittanny og Thelma atkvæðamestar með 9 og 8 stig.

 

Í síðari hálfleik rúlluðu bæði lið bróðurpartinn á minni spámönnum og var janfræði með liðunum út 3. leikhluta sem fór 11-11 og staðan því 24-47 fyrir lokaleikhlutann. Njarðvíkingar náðu ekki að saxa á forskot gestanna í 4. leikhluta og skiptust liðin á því að tapa boltanum klaufalega á víxl, sem var eins konar þema leiksins. Keflvíkingar sigldu á endanum mjög þægilegum sigri í hús. Lokatölur 32-65.

 

Erika Williams lék sinn fyrsta leik með Njarðvík í kvöld og er óhætt að segja að hún hafi ekki skilið mikið eftir sig. Hún hefði mátt reyna mun meira sóknarlega, þá sérstaklega þegar aðeins varamenn beggja liða voru með henni á parketinu í 4. leikhluta. Njarðvíkurkonur börðust þó allan leikinn og gáfust aldrei upp þótt munurinn væri stór. Það verður þeim gott veganesti inn í veturinn sem verður að öllum líkindum langur og strangur í deild þeirra bestu.

 

Hjá Njarðvík var Erika Williams (10 stig) atkvæðamest en hjá Keflavík voru það þær Brittanny Dinkins (16 stig) og Thelma Dís Ágústsdóttir (12 stig) sem leiddu stigaskorun.

 

 

Í síðari leik kvöldsins mættust heimamenn í Njarðvík og Tindastóll en bæði lið hafa tekið talsverðum breytingum og má búast við báðum þessum liðum sterkari en á síðustu leiktíð.

 

Það voru Skagfirðingar sem byrjuðu mun betur og komust í 4-17 eftir tvo þrista frá Pétri Rúnari Birgissyni. Bakvarðasveit Tindastóls, sem er óárennileg á að líta, var óhrædd við að sækja að körfu Njarðvíkinga og koma sér á vítalínuna eða finna opna manninn í galopið skot. Ákefðin var öll Skagirðinga til að byrja og refsuðu þeir heimamönnum í hvíetna þegar róteringin í varnarleiknum klikkaði hjá heimamönnum. Ragnar Nathanaelsson var duglegur fyrir heimamenn og ryksugaði upp hvert frákastið á eftir öðru en voru helst til mislagðar hendurnar sóknarlega þrátt fyrir að fá ágæt færi oft á tíðum. Njarðvíkingar áttu í raun mjög erfitt með að skapa sér opin skot og var sóknarleikurinn tilviljunarkenndur og þvingaður. Axel Kárason lokaði 1. leikhluta með þrist og staðan að honum loknum  8 - 20, Tindastól í vil.

 

Njarðvíkingar girtu sig í brók í öðrum leikhluta og létu finna betur fyrir sér í vörninni. Stólunum gekk illa að finna opin skot og heimamenn gengu á lagið. Ragnar Helgi Friðriksson braust í gegn og fékk villu og körfu góða og í næstu tveimur sóknum skilaði  Terrel Vinson 5 stigum á töfluna og minnkaði muninn í 3 stig, 25-28 þegar 4 mínútur voru eftir af hálfleiknum.  Ragnar Helgi og  Vinson að spila mjög vel fyrir heimamenn á þessum kafla. Hjá gestunum voru þeir Pétur Rúnar og Sigtryggur Arnar að draga vagninn sóknarlega. Staðan í hálfleik 28-34.

 

Það var barist um hvern bolta og ekki margt sem bar þess merki að um æfingaleik væri að ræða þegar Helgi Viggóson fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu í byrjun 3. leikhluta. Helgi setti upp kolólöglega hindrun á Ragnar Helga sem kom á fleygiferð á hann og  lá eftir. Ragnar hristi það af sér eins og stríðsmanni sæmir og setti niður vítin sem fylgdu í kjölfarið. Stólarnir héldu þó áfram að hafa undirtökin og héldu Njarðvíkingum í 5-7 stiga fjarlægð þegar leikhlutinn var hálfnaður. Sigtryggur Arnar fór fyrir sóknarleik gestanna og sýndi oft á tíðum skemmtileg tilþrif. Munurinn 6 stig eftir 3. leikhluta, 53-59.

 

Stólarnir byrjuðu 4. leikhluta af krafti og Friðrik Þór setti þrist úr horninu eftir flott gegnumbrot Sigtryggs Arnar til að koma muninum í 11 stig, 55 -66. Aftur var dæmd óíþróttamannsleg villa, að þessu sinni á Maciej Baginski eftir að hafa rekið olnbogann í andlit Hannesar Inga að því er virtist og náðu gestirnir að keyra muninn upp í 16 stig uppúr því. Þeim mun náði Njarðvík aldrei að ógna og Skagfirðingar gerðu það sem til þurfti og unnu að lokum sanngjarnan 18 stiga sigur.

 

Hjá heimamönnum voru það þeir Ragnar Nat (13 stig), Ragnar Helgi (12 stig) og Terrel Vinson (12 stig) sem voru atkvæðamestir en hjá gestunum voru Sigtryggur Arnar (27 stig ) og Pétur Rúnar (18 stig) í sérflokki.

 

 

Ekki var boðið uppá tölfræði í Ljónagryfjunni kvöld.

 

 

Umfjöllun: Sigurður Friðrik Gunnarsson