Spánverjar hlutu bronsverðlaun

17.sep.2017  16:07 Oli@karfan.is

Gasol bræður í sérflokki

Spánn tryggði sér fyrir stundu þriðja sætið á Eurobasket 2017 eftir sannfærandi sigur á Rússlandi. Spánn hefur eingöngu einu sinni frá árinu 1997 misst af verðlaunasæti á evrópumóti landsliða og varð engin breyting á í dag. 

 

Spánn var mun sterkari í fyrri hálfleik og leit allt út fyrir að liðið næði að fara illa með Rússa í dag. Rússar komu til baka í seinni hálfleik og minnkuðu muninn minnst niður í sjö stig. Gæði Spánverja eru hinsvegar það mikil að þeim tókst að knýja fram góðan sigur að lokum 93-85. 

 

Gasol bræðurnir voru í algjörum sérflokki í dag. Pau Gasol var stigahæstur með 26 stig og bætti 10 fráköstum ofan á það. Marc Gasol var með 25 stig í leiknum. Juan Carlos Navarro lék sinn síðasta landsleik í dag og var með tvö stig. Spánverjum var spáð nokkuð auðveldum sigri á Eurobasket 2017 og því er það nokkuð óvænt að liðið endi í þriðja sæti. Alexey Shved var stigahæstur hjá Rússlandi með 18 stig. 

 

Úrslitaleikur Serbíu og Slóveníu fer svo fram kl 18:30 í dag og verður í beinni útsendingu á RÚV 2.