Eurobasket 2017:

Slóvenar Evrópumeistarar í fyrsta sinn

17.sep.2017  20:35 Oli@karfan.is

Goran Dragic stórkostlegur

Slóvenía tryggði sér evrópumeistaratitilinn 2017 eftir sigur á Serbíu í æsilegum úrslitaleik Eurobasket 2017. Serbar voru sterkari í fyrsta leikhluta en annar leikhluti var algjörlega magnaður hjá Slóveníu og fóru með 56-47 forystu inní hálfleikinn. 

 

Serbía kom til baka í seinni hálfleik og komst yfir um miðjan fjórða leikhluta. Luka Doncic fór útaf meiddur í seinni hálfleik og Dragic lék lítið í lokin en hann virtist vera þreyttur. Aðrir leikmenn stigu hinsvegar upp og náðu í ótrúlegan sigur 93-85. 

 

Goran Dragic var algjörlega stórkostlegur í leiknum, hann endaði með 35 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar. Þá var Klemen Prepelic einnig frábær með 21 stig og var ótrúlega mikilvægur fyrir liðið. Bogdan Bogdanovic var stigahæstur hjá Serbíu með 22 stig og 5 fráköst. 

 

Fyrir mótið var Slóvenía í níunda sæti í kraftröðun FIBA rétt fyrir mót. Það má því segja að sigur Slóveníu sé óvæntur. Ekki nóg með það heldur vann liðið alla leiki sína á mótinu. Slóvenía var einnig með Íslandi í riðli í riðlakeppninni.