Franska deildin hefst eftir viku

Haukur Helgi kominn af stað með Cholet

17.sep.2017  14:13 Oli@karfan.is

Haukur Helgi Pálsson sem í sumar samdi við Cholet Basket í Frönsku úrvalsdeildinni fékk ekki mikið frí eftir að hafa spilað á Eurobasket 2017 með Íslenska landsliðinu. 

 

Örfáum dögum síðar var hann kominn á ferðina með nýja liði sínu en hann kom þaðan frá Rouen í frönsku B-deildinni í sumar. Hann hefur nú leikið þrjá æfingaleiki með liðinu og verið vaxandi í sinni frammistöðu. Í fyrsta leiknum í sigri á Chalon/Saone spilaði hann átta mínútur en setti ekki stig. 

 

Annar leikurinn var gegn sterku liði Galatasaray þar sem Haukur var með 4 stig á 16 mínútum en Cholet tapaði 63-75. Í gærkvöldi var Haukur svo í byrjunarliði Cholet í 87-76 sigri á Dolomiti og setti sjö stig á 21 mínútu. 

 

Cholet endaði í 11. sæti Pro A deildarinnar á síðasta tímabili og ætlar sér stærri hluti á þessu tímabili. Liðið hefur fengið nokkra nýja leikmenn auk þess sem þeir hafa haldið öflugum leikmönnum. Deildin hefst eftir viku þann 23. september og hefur Cholet leik gegn Le Portel. 

 

Mynd / Facebook síða Cholet Basket