Eurobasket 2017:

Endar Goran Dragic landsliðsferilinn sem Evrópumeistari?

17.sep.2017  08:57 Oli@karfan.is

Ævintýrum Slóvenska landsliðsins er ekki enn lokið en liðið leikur í dag öllum að óvörum til úrslita á Eurobasket 2017. Eftir að hafa unnið A-riðil mótsins nokkuð sannfærandi hefur liðið unnið alla leiki í útsláttarkeppnini og þar á meðal Spánverja í undanúrslitum sem þóttu mjög líklegir til sigurs. 

 

NBA stjarnan Goran Dragic leikmaður Miami Heat hefur farið fyrir liðinu hingað til á mótinu ásamt ungstirninu Luka Doncic. Hann gaf það út fyrir mótið að þetta yrðu hans síðustu landsleikir fyrir Slóveníu. 

 

„Ég vissi eftir að ég yfirgaf völlinn síðasta fimmtudag að þetta væri minn síðasti heimaleikur fyrir framan bestu stuðningsmenn í heimi. Ég grét næstum. Hendur mínar og fætur urðu þungar. Ég minntist þess hversu stoltur ég var þegar ég var fyrst valinn í yngri landslið Slóveníu. Ég mundi hvernig tilfinningin var þegar ég vann gullverðlaun fyrir þjóðina á U20 evrópumótinu í Brno.“ segir Dragic meðal annars í hjartnæmri tilkynningu. 

 

Þegar Podcast Karfan.is gerði skoðanakönnun tveimur vikum fyrir mót sáu 15% þátttakanda Slóveníu sem það lið sem Ísland ætti mesta möguleika á að vinna. Ekki voru margir sem gerðu þá ráð fyrir því að Slóvenía væri einum leik frá evrópumeistaratitlinum og vera ósigrað á mótinu. 

 

Í viðtali við Karfan.is í riðlakeppninni sagði Goran Dragic að liðið hefði frá fyrstu æfingu sett sér það markmið að komast á verðlaunapall. Það yrði erfitt en að þeim væri leyft að dreyma um það. Viðtalið má finna í heild sinni hér að neðan:

 

Hvort draumur Dragic og Slóveníu um evrópumeistaratitilinn verði að veruleika í dag mun koma í ljóst kl 18:30 í dag er liðið mætir Serbíu í úrslitaleik. Leikurinn er sýndur í beinni útsendingu á RÚV 2.