Eurobasket 2017:

Rússland síðasta liðið í átta liða úrslit

10.sep.2017  20:30 Oli@karfan.is

Shved með ótrúlegan leik

Rússland var í kvöld síðasta liðið til að tryggja sig í átta liða úrslit Eurobasket 2017 eftir óvæntan en öruggan sigur á Króatíu. Leikurinn var nokkuð jafn framan af en Rússar voru alltaf með yfirhöndina. 

 

Rússar stungu svo af í seinni hálfleik, náðu 20 stiga mun fljótlega og gáfu þá forystu aldrei af hendi. Lokastaðan 101-78 fyrir Rússlandi sem mun mæta Grikklandi á miðvikudaginn í átta liða úrslitum. 

 

Alexey Shved átti ótrúlegan leik fyrir Rússland í dag. Hann endaði með 27 stig og 12 stoðsendingar auk þess að bæta við fjórum stoðsendingum. Bojan Bogdanovic var eini leikmaður Króatíu sem fann sig sóknarlega en hann var með 28 stig en helsta vonarstjarna Króata Dario Saric fann sig engan vegin og hitti mjög illa. 

 

Króatía ætlaði sér stóra hluti á Eurobasket 2017 og því gríðarleg vonbrigði fyrir gott lið að falla úr leik í 16 liða úrslitum. Liðið komst aldrei í takt sóknarlega í dag en vörn Rússland var mjög sterk. 

 

Rússland er því komið í átta liða úrslit ásamt: Grikklandi, Þýskalandi, Slóveníu, Ítalíu, Lettlandi, Spáni og Serbíu. Átta liða úrslitin fara fram á þriðjudag og miðvikudag en þau eru í beinni útsendingu á RÚV og RÚV 2. 

 

Tölfræði leiksins