NBA:

Barkley segir Kobe enn betri en Lebron

10.sep.2017  08:54 davideldur@karfan.is

Jordan ennþá besti leikmaður allra tíma

 

Michael Jordan er enn besti körfuboltamaður allra tíma samkvæmt fyrrum stjörnuleikmanninum Charles Barkley. Í færslu sem CSN Philly birti frá ummælum Barkley í síðustu viku má sjá þá tólf bestu frá upphafi að hans mati. Finnst Barkley eðlilegt að hafa umdeilanlega besta leikmann heimsins í dag, Lebron James, í sjöunda sæti listans, en þar er hann fyrir neðan Michael Jordan, Oscar Robertson, Wilt Chamberlain, Bill Russell, Kareem Abdul Jabbar og Kobe Bryant.

 

Í október í fyrra tjáði Barkley sig um mikilvægi þess að vinna titla til þess að klifra upp þennan lista þegar að hann sagði:

 

"Ég veit ekki afhverju þið viljið flýta ykkur svo að færa hann (Lebron) uppfyrir Tim Duncan og Kobe. Ef hann vinnur nokkra fleiri titla, þá má vera að ég færi hann uppfyrir Kobe og Tim Duncan. Umtalið snýst alltaf um meistaratitla, Kobe og Tim Duncan eru með fimm, Lebron er bara með þrjá."

 

Eitthvað hefur álit Barkley á Lebron aukist síðan að hann lét þessi ummæli frá sér, en eins og flestir vita hefur meistaratitlum hans ekkert fjölgað síðan, en samt er leikmaðurinn kominn uppfyrir Tim Duncan.

 

Sjálfur segist Barkley vera í tuttugasta sæti þessa lista, en eins og frægt er náði hann aldrei að vinna þann stóra á sínum feril þrátt fyrir að vera lengi einn besti, ef ekki besti leikmaður deildarinnar.

 

Listann má sjá í heild hér fyrir neðan: