EuroBasket 2017:

6 hlutir sem ég lærði á EuroBasket í Helsinki

08.sep.2017  09:57 davideldur@karfan.is

 

Þá er rykið farið að setjast á þetta lokamót EuroBasket 2017 sem íslenska landsliðið tók þátt í í Helsinki frá 31. ágúst til 6. september. Í annað skiptið í sögunni sem að liðið tekur þátt í lokamótinu, en síðast var það fyrir tveimur árum, í Berlín 2015. Til að setja þetta í samhengi tíma þá lék landsliðið sinn fyrsta leik fyrir 57 árum, þann 16. maí árið 1959, þar sem þeir töpuðu naumlega fyrir Danmörku, 38-41. Fyrsta leik sínum á Evrópumóti töpuðu þeir einnig tíu árum seinna fyrir Svíþjóð, árið 1969, 59-71. 

 

Fyrsti sigurinn í lokakeppninni kom ekki í þetta skiptið, en liðið var þó grátlega nálægt honum í síðasta leik gegn heimamönnum í Finnlandi. Frábær ferð þó til Finnlands fyrir þá sem fjalla um íslenskan körfubolta og stuðningsmenn liðsins að baki. Í afþreyingarlausu fluginu á leiðinni heim gafst undirrituðum tími til þess að íhuga hluti varðandi mótið og koma nokkrum þeirra á blað. Hérna eru sex hlutir sem ég lærði á lokamóti EuroBasket 2017. 

 

 

 

1. Kynslóðaskiptin gerast ekki á einni nóttu

 

Mikið hafði verið ritað og rætt um möguleg kynslóðaskipti íslenska liðsins fyrir þetta lokamót í Helsinki. Þegar upp var staðið var besti leikmaður íslenska liðsins á mótinu líklega Martin Hermannsson. Hann er 22. ára gamall og er með samning í efstu deild í Frakklandi. Næst framlagshæsti leikmaður liðsins var Haukur Helgi Pálsson, hann er 25 ára og spilar í sömu deild. Sá þriðji var Hörður Axel Vilhjálmsson, hann er 28 ára og mun spila næsta vetur með sterku liði Astana í Kasakstan. Meðalaldur þessara þriggja leikmanna er 25 ár og þeir voru allir að ljúka sínu öðru lokamóti.

 

Kynslóðaskipti vissulega, en liðið reynir sig þó enn á eldri leikmenn. Sem dæmi skilaði hinn 35 ára gamli Hlynur Bæringsson hvað bestri tölfræði allra liðsmanna í undankeppni þessa lokamóts, sem og átti hann flotta spretti úti í Finnlandi. Þá var Jón Arnór Stefánsson frábær á móti Frakklandi, 23 stig og 7 fráköst á 24 mínútum spiluðum ásamt miklu framlagi í öðrum leikjum. Nú er ég ekki að segja að þessir leikmenn hafi aldrei verið betri, alls ekki, en þeir eru alveg örugglega ennþá einir af 12 bestu leikmönnum þjóðarinnar.

 

Einnig mikið talað um þær víddir sem að Tryggvi Snær Hlinason og Kristófer Acox kæmu með til borðsins fyrir mót. Tryggvi sem miðherjinn sem liðið hafði beðið eftir í fjölda ára og Kristófer sem sá mikli íþróttamaður sem hann er. Á köflum sýndu þeir báðir hvers má vænta af þeim fyrir liðið í framtíðinni. Kristófer sérstaklega í leiknum gegn Frakklandi þar sem að hann setti 10 stig og tók 7 fráköst á 19 mínútum spiluðum. Tryggvi kannski ekki í einum sérstökum leik, frekar brot úr leikjum.

 

Báðir tveir gífurlega öflugir og virkilega gaman að fylgjast með þeim, en eftirá að hyggja, held ég að maður hafi gert óraunhæfar kröfur á þau skref sem að þeir “áttu” að taka á þessu móti. Það sem að þeir gerðu nú á sínu fyrsta lokmóti veit þó á gott og gaman verður að fylgjast með þeim báðum koma betur inn í liðið á næstu árum.

 

Hvað hina leiðtoga liðsins varðar getur verið að þeir þurfi meiri reynslu saman í brú íslenska skipsins. Virkilega góðir á löngum köflum og aðeins hársbreidd frá því að tryggja liðinu fyrsta sigurinn í síðasta leiknum gegn Finnlandi.

 

Hvað lærði ég: Framtíðin er ekki alveg komin, en hún er björt.

 

 

2. Berlín var ekki núllpunkturinn

 

Aðstoðarþjálfari liðsins, Finnur Freyr Stefánsson, talaði sannleik í viðtali við okkur eftir næst síðasta leikinn gegn Slóveníu þegar að hann sagði að mögulega hafi lokamótið í Berlín 2015 ekki verið “núllpunkturinn” sem allt ætti að bera saman við. Það sem ég þóttist skilja á honum þar var að árangur liðsins, það að liðið hafi verið í jafnari leikjum á lokamótinu fyrir tveimur árum hafi ekki gefið rétta mynd fyrir þetta mót. Gott og vel, ég kaupi það. Á síðustu árum hefur liðinu tekið gríðarlega fram. Miðar á ballið tvö skipti í röð hljóta á endanum að útskýra það. 

 

Hvað lærði ég: Það þarf að taka stundum að taka fleira inn í dæmið en samanburð við síðasta mót

 

 

3. Elvar Már er góður í körfubolta

 

Held að vel flestir stuðningsmenn liðsins geti verið sammála um hversu vel Elvar Már Friðriksson kom inn í leiki liðsins þegar það leið á mót. Eftir að hafa spilað 2-3 mínútur í fyrstu tveimur leikjunum, spilaði hann tæpar 13 mínútur að meðaltali í leik síðustu þrjá. Bestur í næst síðasta leiknum gegn Slóveníu, þar sem að hann setti 9 stig, tók 2 fráköst og gaf 3 stoðsendingar á móti umdeilanlega besta bakvarðapari lokamótsins í heild. Maður er kannski svona grænn að láta þetta koma sér á óvart, en þó tölfræði hans hafi heillað frá síðasta tímabili með Barry U í bandaríska háskólaboltanum, vissi maður ekki hversu frábær leikstjórnandi hann er orðinn. Virkilega ferskur vindur í annars, sumum hverjum, erfiðum leikjum fyrir íslenska liðið á þessu móti. 

 

Hvað lærði ég: Leikmenn verða betri þó þú horfir ekki reglulega á leiki með þeim

 

 

4. Róm var jafnvel byggð á tveimur til þremur dögum

 

Ekkert nafn hefur fengið jafn margar fyrirsagnir á karfan.is á þessu ári og Tryggvi Snær Hlinason. Á sínu fyrsta tímabili í Dominos deildinni skilaði hann 12 stigum og 8 fráköstum á 28 mínútum spiluðum í leik með Þór Akureyri. Orðaður allt síðasta tímabil við stærri lið í Evrópu. Gerði svo samning við Spánarmeistara Valencia eftir tímabilið. Í sumar var hann svo bæði framlagshæsti leikmaður undir 20 ára Evrópumóts og valinn í fimm manna úrvalslið þess. Væntingarnar fyrir þetta mót því kannski eftir þessu öllu. Þarna átti hann bara að taka næsta skref og gera það sama með A landsliðinu, eða hvað? Er það full mikið? Ég held það. Vissulega hefði verið gaman að sjá hann oftar inni á vellinum. Því þegar að hann var þar var hann alls ekki lélegur, skilaði t.a.m. 50% þeirra skota sem hann tók á mótinu ofan í körfuna. 

 

Þróun hans sem leikmanns verið undraverð síðustu misseri. Fullkomlega eðlilegt að hann hafi ekki tekið enn eitt risatökkið á þessu móti. Vel hægt að fara að hlakka til þess að hans sem byrjunarliðsmanns í þessu liði, þó það taki lengri tíma en maður hefði viljað. 

 

Hvað lærði ég: Að vera þolinmóður

 

 

5. Væntingarnar

 

Aftur, Berlín var greinilega ekki núllpunkturinn. Helsinki var núllpunkturinn, eða, allavegana nær því. Sem stuðningsmaður þessa liðs gef ég mér þann rétt að fá að vera með væntingar, líkt og varðandi allt annað sem mér er kært um í lífinu. Þessar vonir hafa þó oft lítið að gera með raunveruleikann. Úrslit leikjanna eru raunveruleikinn.

 

Vonir mínar fyrir þetta mót voru þær að liðið myndi vinna leik. Bjartastar að liðið myndi vinna tvo leiki og komast áfram. Einhvernvegin verð ég að sættast á að þessar vonir mínar urðu ekki að raunveruleika. Mér er svo frjálst að gera það á þann hátt sem ég vil. Ef ég vill vera skúffaður yfir að einhver spilaði ekki nóg eða var ekki valinn í liðið, þá geri ég það. Ef það er eitthvað varðandi leikskipulag, þá er það í lagi líka.  

 

Á endanum get ég þó ekki horft framhjá þeim staðreyndum sem mótið sagði mér. Þjálfarar og leikmenn virtust reyna allt hvað þeir gátu. Betri leikur liðsins eftir því sem leið á undirstrikar það að eitthvað var þeim að takast. Aftur, Berlín var ekki núllpunkturinn. Helsinki var hann. Ég tek því, ég tek því að liðið sem ég haldi með sé þáttakandi í lokamóti EuroBasket. Því það eitt og sér er frábær árangur.

 

Hvað lærði ég: Það er hlutverk stuðningsmanna að gagnrýna, smá þakklæti hefur samt aldrei drepið neinn

 

 

 

6. Ósérhlífni leikmanna og stuðningsmanna

 

Íþróttafréttamaðurinn Arnar Björnsson benti í vikunni á góðan punkt í samfélagsmiðlafærslu. Sagðist hann hafa fylgt íslenskum liðum í nokkuð mörg ár á ferðalögum erlendis og þó að það væri skemmtilegra þegar að liðin væru að vinna, þá gerðist það ekkert alltaf. Líkt og í Helsinki þar sem að liðið var búið að tapa fyrstu fjórum leikjum sínum, en samt var allt liðið alltaf tilbúið að mæta í viðtöl beint eftir leik í einlægni og gefa af sér.

 

Færsla Arnars:

 

 

Í allri alvöru, algjörlega frábært. Maður gerði sér ekki alveg grein fyrir hversu sérstakt þetta er fyrr en bent var á það. Vandamálið við það kannski að þessir leikmenn og þjálfarar hafa allir hagað sér svona lengi. Við sem fjölmiðill höfum í raun verið hálf ofdekraðir af góðum mannasiðum allra þessara manna. Hugsað til baka, þá hefur maður í mörg skipti hitt þá eftir erfið töp áður, en alltaf eru þeir reiðubúnir að hanga úti á parketi þangað til allir hafa fengið sín einlægu komment.

 

Fyrir landsliðið sem slíkt og árangur þess hafa margir þessara leikmanna lagt mikið á sig til að það sé á þeim stað sem það er á í dag. Bæði í þessu og Berlínarliðinu eru leikmenn sem hafa gefið liðinu tæpa tvo áratugi. Hlynur, Jón og Logi spiluðu allir sína fyrstu leiki árið 2000. Leika enn risastórt hlutverk í þessu liði, sem er frábært, eða eins og fyrrum ritstjóri Körfunnar, Jón Björn Ólafsson kemst að orði, þeir eru sómi okkar sverð og skjöldur.

 

 

 

Stuðningsmenn liðsins eru einnig frábærir. Þvílíkur fjöldi sem fylgdi liðinu til Finnlands. Þvílíkur fjöldi sem hélt áfram að styðja liðið þrátt fyrir að kannski hafi verið gert úti um leiki fyrir löngu. Fleiri en færri leikmenn og þjálfarar andstæðingana höfðu orð á þessu eftir leiki. Meira að segja ungstirni Slóveníu, Luka Doncic, minntist á þetta “Ég kann vel við stuðningsmennina, í alvöru, það skiptir þá ekki máli hvort liðið er að vinna með 30 eða tapa með 30, frábært að hafa þá”

 

Hvað lærði ég: Ótal aðilar, leikmenn, þjálfarar, forráðamenn, stuðningsmenn og fleiri hafa lagt á sig ómælda vinnu til þess að búa þessi augnablik til. Afhverju ætti ég að gera nokkuð annað en að njóta þeirra?