Eurobasket 2017:

Með upprétt bak þrátt fyrir svekkjandi tap

06.sep.2017  20:49 Oli@karfan.is

Markkanen kom í veg fyrir sigur Íslands

Ísland tapaði síðasta leik sínum á Eurobasket þetta árið fyrir Finnlandi, 82-76. Íslensku strákarnir spiluðu frábærlega allan leikinn en finnska liðið var reyndist erfitt á lokasprettinum, með Chicago Bulls leikmanninn Lauri Markkanen í broddi fylkingar. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

Gangur leiksins:

 

Leikurinn var jafn strax í byrjun. Haukur Helgi setti þrist strax í byrjun, kveikti í stuðningsmönnum og kom Íslandi í 5-0. Lauri nokkur Markkanen kveikti í heimamönnum þegar hann kom inná og setti þrist til að koma Finnlandi yfir. Finnska liðið náði svo tökum á leiknum og náði mest 10 stiga mun. Íslenska liðið náði þá síðustu tveimur körfum leikhlutans til að laga stöðuna í 24-18. 

 

Annar leikhluti var eign Íslands. Vörnin var virkilega sterk en frekar slök vítanýting (7/12) og nokkrar lélegar ákvarðanir í sókninni komu í veg fyrir að Ísland myndi stinga af. Ísland náði forystunni og allt leit út fyrir að liðið færi með forystu inní hálfleikinn. Sérstaklega slök lokasókn Ísland gaf Finnlandi tækifæri á síðasta skotinu sem þeir settu langt fyrir aftan miðju. Fyrir vikið fór Finnland með mjög ósanngjarna forystu inní hálfleikinn 42-40. 

 

Þriðji leikhlutinn var algjörlega frábær hjá Íslandi. Liðið fann greinilegt lykt af sigri og sýndi ákefð til að klára þennan leik. Haukur Helgi Pálsson þakkaði Lauri fyrir sinn þátt í leiknum og varði bolta hans með gríðarlegum tilþrifum. Staðan eftir þriðja leikhluta var 52-59 fyrir Íslandi og möguleikarnar á sigri heldur betur til staðar. 

 

Útlitið var gott frameftir fjórða leikhluta en ögn af einbeitingarleysi og slökum ákvarðanatökum hleypti Finnlandi aftur yfir. Martin Hermannsson missti hausinn um sinn og fékk á sig tæknivillu beint eftir körfu Finnlands. Finnarnir settu þar sjö stig í einu og skyndilega komnir yfir. Jón Arnór, Hlynur og Haukur fóru svo allir útaf með fimm villur og sóknarleikur Íslands komst aldrei í takt eftir það. Finnland tókst að landa sigrinum á endanum 83-79 og biðin eftir fyrsta sigri Íslands á Eurobasket því aðeins meiri. 

 

Hetjan:

 

Hlynur Bæringsson og Martin Hermannsson deila þessum titli í dag. Hlynur endaði með 15 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar auk þess sem hann skildi allt eftir á vellinum. Martin Hermannsson endaði með 12 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar auk þess að vera með 55% skotnýtingu. Umfram allt var það liðsheildin sem skóp frammistöðuna í dag. Það var ljóst frá upphafi að sigurinn átti að koma í dag. Leikmenn gerðu þetta fyrir hvern annan og sýndu af hverju þetta lið er á þessum stað. 

 

Það er hinsvegar ekki hægt að skrifa um þennan leik án þess að nefna Lauri Markkanen. Hann setti liðið á herðarnar eins og það væri skólataska og bar það yfir endalínuna sem sigurvegara. Hann endaði með 23 stig og 50% skotnýtingu. Mikið af stigunum kom í lok leiks sem tryggði sigurinn. Ótrúlegt efni sem er að sýna sig og sitt gildi á þessu móti.

 

Kjarninn:

 

Þetta tap svíður, maður minn. Íslenska liðið sýndi í dag það sem beðið hefur verið um allt mótið. Hjarta, sál, geðveiki og umfram allt góðan körfubolta í 40 mínútur. Liðið verður seint sakað um að leggja sig ekki fram en í dag fylgdi körfuboltinn með og það allan leikinn. Körfubolti er leikur áhlaupa og því viðbúið að Finnland næði áhlaupi í fjórða leikhluta en ákvarðanatökur og ögn af einbeitingarleysi Íslands hjálpaði þeim í dag. 

 

Það hefur legið þungt á liðinu síðustu töp sem hafa öll verið stór og frammistaðan verið sveiflukennd. Gagnrýnin hefur verið nokkur á leikmenn og þjálfara eins og gerist á sviði sem þessu. Það var því frábært að sjá karakterinn í liðinu að mæta til leiks í dag og gefa gagnrýnisröddum langt nef. Liðið skildi allt og meira en það eftir á vellinum. 

 

Það er ekki sjálfgefið að taka þátt í þessu móti fyrir litla þjóð eins og Ísland. Eins og staðan er á þessu móti eru gæði annara liða einfaldlega meiri og því þarf allt að ganga 100% til að ná sigri. Ungir leikmenn eru í stanslausri framför og margir sðennandi enn yngri leikmenn að stíga sín fyrstu skref. Það er því von að liðið geti byggt á þessu móti og sótt sigur á næsta stórmóti. Sjáumst á Eurobasket 2021. 

 

Einkunnir leikmanna úr leiknum

Myndasafn leiksins (FIBA)

Tölfræði leiksins:

 

Blaðamannafundur liðanna eftir leik:

 

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

Mynd / FIBA