Nick Bradford:

Hefði viljað spila fyrir Ísland

29.ágú.2017  11:05 Skúli Sig (skuli@karfan.is)

Fékk enga hjálp við umsókn um ríkisborgararétt - Þjálfari í dag

 

 

Nick Bradord var að öllum líkindum einn sá allra litríkasti erlendi leikmaður sem hingað hefur komið.  Nick muna líkast til flestir eftir með Keflvíkingum þar sem hann landaði þeim stóra.  En kappinn hinsvegar náði á ferli sínum hér á Íslandi að afreka nokkuð sem engin annar erlendur leikmaður hefur gert. Að spila með öllum Suðurnesjaliðunum í efstu deild og til að toppa það þá spilaði hann með tveimur þeirra í sömu úrslitakeppninni.

 

Við heyrðum í Nick nú í vikunni þegar kappinn fagnaði 39 ára afmæli sínu. Nick sagði í samtali að hann fylgist enn með körfunni hér á Íslandi í gegnum netið. „Ég fylgist með í gegnum heimasíðu KKÍ og auðvitað Karfan.is. Ég svona fylgist aðalega með stöðunni og hvar Keflavík er í töflunni. Einnig með strákunum sem ég spilaði með sem eru nú dreifðir á önnur lið. Annars jú fylgist ég bara með öllu og hef gaman af því.“ sagði Bradford og ítrekaði að af þeim liðinum sem hann hefur spilað með hefur hann mestar taugar til Keflavíkur, augljóslega.

 

Nick hefur verið viðloðandi körfuknattleik síðan hann hætti að spila en eins og flestir vita þá spilaði Nick í Kansas háskólanum við hlið ekki minni spámanna en Paul Pierce svo einhver sé nefndur. „Ég hef verið að þjálfa hérna heima fyrir síðan ég hætti. Ég þjálfa í undirbúnings háskóla (Junior College) og í 2. deildar háskóla. Síðustu tvö hef ég þjálfað í grunnskóla (High School)  Núna þjálfa ég stelpur í grunnskóla í Kansas og einnig í Nike afreksbúðum.

 

Sem fyrr þá var Nick einn af þeim skrautlegri og hann notaði jafnt körfuknattleikshæfileika sína jafnt því að spila inná andleguhlið andstæðinga sína og var kjaftur hans stöðugt að vinna í þeim hluta.  Hann spilaði hér í nokkur ár og á tímabili hafði hann áhuga á því að næla sér í ríkisborgararétt. „Já ég pældi mikið í því á tímabili og hafði mikin hug að láta það ganga upp. En ég fékk aldrei þá hjálp sem ég þurfti til að hefja ferlið. Ég spurði út í þetta en áhugi virtist ekki vera til þess að aðstoða mig á þessum tíma.  Þetta hefði að sjálfsögðu opnað margar hurðar í Evrópu og mögulega getað þénað meiri pening og spilað lengur. En mikilvægast þá hefði það verið heiður fyrir mig að spila fyrir hönd Íslands með landsliðinu.“ sagði Bradford. 

 

Nick vildi koma fram kveðju á alla sína félaga á Íslandi og vonaðist til að eiga möguleika til að heimsækja á komandi árum. "Það væri gaman að koma og heimsækja og jafnvel halda einhverjar körfuboltabúðir. Svo myndi ég auðvitað skoða það vandlega ef þjálfarastarf væri laust og mér boðið." sagði þessi geðþekki leikmaður að lokum.