Jakob Sig:

Pavel væri til í "Ermó" buxurnar sínar

28.ágú.2017  11:37 Skúli Sig (skuli@karfan.is)

Jakob saknar góðra samverustundar með félögunum

Jakob Sigurðarsson fyrrum bakvörður landsliðsins sagði skilið við sinn landsliðsferil fyrir tveimur árum, eða eftir EM í Berlín.  Jakob var lykilmaður í liðinu án nokkurs vafa og stýrði leik liðsins að öllu jöfnu með festu.  Við heyrðum í Jakob nú í bítið og spurðum hann hvort eitthvað kítl hafi komið í hann að sjá á miðlum liðið halda af stað. „ Veistu ég hef ekkert fundið fyrir neinni löngun eða neitt svoleiðis að vera í hópnum og sáttur við mína ákvörðun, fyrr en í morgun.  Nú langar mig ógeðslega mikið að vera með félögunum.“ sagði Jakob.

 

„ Tíminn með strákunum, hangsið á milli leikja getur verið mjög skemmtilegt enda allir góðir félagar og flestir þekkst lengi og farið í margar ferðir saman. Svo að sjá og upplifa nýja hluti í mismunandi löndum. Þetta eru allt hlutir sem ég sakna frá landsliðinu.“ sagði Jakob ennfremur.

 

Liðið náði ekki sigri í Berlín þó vissulega hafi liðið verið hársbreidd frá því gegn þremur af fimm liðum. Möguleikar liðsins í þetta skiptið eru meiri vill Jakob meina.  „Ég hef trú á að fyrsti sigurinn komi! Riðillinn í Berlín var erfiðari en þessi og þar vorum við í nokkrum jöfnum leikjum sem hefðu getað dottið með okkur. Í Finnlandi komum við kannski ekki jafn mikið á óvart og hinar þjóðirnar verða betur undirbúnar að mæta okkur en ég er viss um að við munum lenda í jöfnum leikjum og vonandi náum við að klára allavega einn.

 

Umgjörðin í kringum liðið er gjörbreytt og eitt af því sem hefur vakið athygli er að Herragarðurinn með Hermann Hauksson í fararbroddi hefur dressað liðið frá toppi til táar.  Jakob sagðist vera hrifinn af þessu en við spurðum hann í gamni hvern hann sæi fyrir sér að myndi alveg vera til íþróttagallann fremur en jakkafötin.  „Þeir eru nokkrir.  Ég veit að Ægir er mjög hrifinn af íþróttabuxum þar sem skálmarnar eru girtar í sokkana. Honum finnst það mjög töff. Pavel væri örugglega til í að vera í Ermo buxunum sínum. Hlynur er gamall og stirður og vill líklega bara vera í einhverju þægilegu. Logi þarf að geta teygt á milli fluga, veit ekki hvort hann geti það í jakkafötum. Martin er kannski sá eini sem finnur engan mun. En þetta er virkilega flott og strákarnir líta vel út.“  sagði Jakob að lokum.  Jakob sagðist ekki geta mætt á mótið vegna anna hjá fjölskyldunni þó vissulega væri vilji til að koma og styðja félaga sína úr stúkunni.  „Ég sendi þeim bara baráttukveðjur og mun fylgjast með þeim í sjónvarpi.“