Undankeppni HM

Hannes: Vissum að við fengjum sterka andstæðinga

24.ágú.2017  10:16 Skúli Sig (skuli@karfan.is)

Búlgaría, Tékkland og Finnland í undankeppni HM

Það er skammt stóra högga á milli hjá karlalandsliðinu sem nú í morgun lentu eldsnemma frá Litháen og halda til Finnlands fljótlega eftir helgi. Nú rétt í þessu var dregið í riðla fyrir undankeppni HM  í Munchen.  Ísland mun leika í F riðli fyrir komandi heimsmeistaramót og í riðli með Búlgaríu, Finnlandi og Tékklandi.  Samkvæmt dagatali á heimasíðu FIBA mun Ísland hefja leik gegn Tékklandi þann 24. nóvember nk. og leikið yrði í Tékklandi.  Sjá hér niðurröðun leikja. 

 

Ísland lék síðast gegn Búlgaríu árið 2014 þegar Peter Öqvist var við stjórnvölin í undankeppni fyrir Eurobasket.  Báðir leikir töpuðust.  Síðasti leikur gegn Finnum var fyrir 6 árum á Norðurlandamóti í Svíþjóð. Þá töpuðu okkar menn með 32 stigum.  Eftir okkar bestu vitneskju hefur Ísland aldrei mætt Tékklandi í körfuknattleik en gömlu Tékkóslóvakíu spilaði Ísland við það herrans ár 1976 og töpuðu með 51 stigi


"Við vissum að við myndum fá sterkan andstæðing í riðilinn okkar og það verður bara gaman að mæta Búlgaríu ásamt hinum þjóðunum sem eru með okkur í riðlinum það er Tékklandi og frændum okkar Finnum. Það er að sjálfsögðu afar krefjandi en á sama tíma ánægjulegt fyrir íslenskan körfubolta að einungis rúmum tveim mánuðum eftir að EuroBasket veislunni lýkur séum við að fara spila í undankeppni HM ú nýju keppnisfyrirkomulagi FIBA. Það er afar mikilvæg fyrir okkur að ná að vera í topp þremur sætunum af þessum fjórum í riðlinum ætlum við okkur að komast sem fyrst inn á lokamót HM eða EM aftur. Sérlega ánægjulegt að fá við fáum bæði að sjá karla og kvennalandsliðið okkar spila leiki inni í miðju körfuboltatímabili það er nóvember og febrúar." sagði Hannes Jónsson formaður KKÍ um hans fyrstu viðbrögð við þessum drætti.