Hildur Björg til Club Baloncesto Leganés:

"Frekar stór ákvörðun fyrir mig"

24.ágú.2017  12:04 davideldur@karfan.is

 

Landsliðskonan Hildur Björg Kjartansdóttir hefur samið við spænska liðið Club Baloncesto Leganés um að leika með þeim á komandi tímabili. Hildur, sem lék síðustu ár með háskólaliði UTR Grand Valley í Bandaríkjunum, hafði fyrr í sumar gert samning við Dominosdeildarlið Breiðabliks, en ljóst er nú að einhver verður biðin lengri að sjá hana spila hér heima.

 

Hildur var með 7,7 stig og 7,1 frákast að meðaltali hjá Rio Grand Valley á síðasta tímabili. Hún hefur leikið stórt hlutverk í íslenska A-landsliðinu síðustu ár þegar hún hefur getað tekið þátt. Hún var í landsliðshópnum á Smáþjóðaleikunum í San Marínó nú í sumar.

 

Club Baloncesto Leganés leikur í spænsku annarri deildinni, Liga Femenina 2, en aðspurð segir Hildur:

 

"Þetta var frekar stór ákvörðun fyrir mig af því að ég ætlaði að taka eitt ár í deildinni hérna heima fyrst. Mér líst mjög vel á liðið og deildina. Þetta verður áskorun fyrir mig að koma úr háskólaboltanum og í atvinnumennskuna en þetta er talin vera góður staður til þess að koma sér á framfæri í boltanum. Staðsetning og aðstaða er fín og þjálfarinn hefur unnið með yngri landsliðin á Spáni þannig að þetta lítur allt mjög vel út"